Laugardagur 11. júlí 2015

Vefþjóðvijinn 192. tbl. 19. árg.

Í gær var hér skrifað um undirskriftalista fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu, þær kröfur sem gera þyrfti til slíkra lista, hvernig og hvar undirskrifta væri aflað. Þetta er aldrei rætt af alvöru þeim sem mest tala um slíkar undirskriftir og þjóðaratkvæðagreiðslur.

Líkt og kom í ljós þegar „kosið“ var til „stjórnlagaþings“ er gangverk lýðræðisins ekki endilega hrist fram úr erminni, slík gangverk þurfa að slípast í áranna rás til að öðlast traust og tiltrú. Þeir sem ætla sér að vera nútímalegir og sniðugir í stað þess að halda sig við hefð og venjur við lýðræðislegar athafnir geta lent í furðulegum ógöngum. Vissulega er þó ólíklegt að jafn illa muni nokkru sinni takast til við hönnun á nýju kosningakerfi og framkvæmd á nokkurri kosningu í sögu Íslands og í tilviki „stjórnlagaþings“ og eru þá hvorki aðalfundir húsfélaga né fundir um fjármál Borgarahreyfingarinnar og Flokks heimilanna frá taldir. Það er kannski ekki sanngjarnt að taka svo einstæðan skrípaleik sem dæmi.

Stundum er reyndar eins og „þjóðaratkvæðagreiðsla“ skjóti helst upp kollinum þegar stjórnmálamenn eiga sjálfir bágt með að taka afstöðu til mála eða gera sér grein fyrir því að með því að upplýsa um afstöðu sína til umdeildra mála kunna þeir að ýta þeir hluta kjósenda frá sér. Þá er auðveldast að gala bara „sendum málið til þjóðarinnar“. Og hver getur verið andvígur því að „þjóðin fái að segja sitt álit“?

En eins fallega og það hljómar er það ekki rétt að „þjóðin“ gefi upp álit sitt í slíkum atkvæðagreiðslum. Oft er það eins lítill hluti hennar sem ræður úrslitum, til dæmis 55% af þeim 45% sem mæta á kjörstað. Hefur „þjóðin talað“ þegar slíkur fjórðungur atkvæðabærra manna lýsir ákveðnni afstöðu til einfaldrar spurningar, sem jafnan er deilt um orðalag á,  í almennri atkvæðagreiðslu?

Nei auðvitað er að oftúlkun að menn nái fram „þjóðarvilja“ í slíkum kosningum. Hann er reyndar hvergi til og hvergi hafa verið verri þjóðfélög en þar sem stjórnvöld hafa orðið einbeitt í því að knýja hann fram.