Vefþjóðviljinn 191. tbl. 19. árg.
Stundum er þess krafist að stjórnskipun Íslands verði breytt þannig að „undirskrift“ svo eða svo stórs hlutfalls kjósenda fái formlega þýðingu. Að eitthvert hlutfall „undirskrifta“ geti stöðvað lög, rofið þing, kallað fram allsherjaratkvæðagreiðslu, eða ýmislegt annað sem mönnum dettur í hug.
Eins og flest öll ríki á Vesturlöndum viðgengst fulltrúalýðræði á Íslandi og hefur í stórum dráttum gefist vel. Því má hins vegar breyta, að vandlega athuguðu máli, ef raunveruleg ástæða verður til.
En þegar menn tala um „undirskriftir“, hvað ætli menn hafi þá í huga? Ætli einhver haldi að þar komi til álita einhverjir músarsmellir í tölvu?
Af og til heyrist af söfnun „undirskrifta“ sem sögð er fara þannig fram að einhver útbýr vefsíðu og þar er hægt að skrá nöfn og kennitölur. Við hverja skráningu hækkar teljarinn á forsíðunni og áhugasamir fréttamenn auglýsa söfnunina aftur og aftur með því að segja að nú þegar hafi mörgþúsundogþrjátíu skrifað undir.
En fréttamenn vita ekkert um það hversu margir hafa „skrifað undir“. Þeir vita bara hvað teljarinn á forsíðunni segir. Auðvitað vita allir um áhuga þeirra Mikka músar, Andrésar andar og Napoleons Bonaparte á slíkum söfnunum, enda eru þeir iðulega fyrstir á blað. Við slíku má sjá með samkeyrslu við þjóðskrá. En það sem erfiðara er við að eiga er fölsk skráning á raunverulegu fólki. Auðvitað gera margir það sér til skemmtunar að skrá vinnufélagann með vitlausu skoðanirnar á listann og finnst bráðfyndið að einhver miðbæjarmaðurinn sé óafvitandi farinn að verja flugvöllinn.
Í öllum svona söfnunum verður svindl. Það er engin leið að segja hversu mikið í hvert sinn. En því meiri hiti sem er í deilum og því meiri líkur sem heitustu baráttumennirnir telja vera á því að söfnunin beri árangur, því meiri líkur eru á svindli og fölskum skráningum. Þar við bætist þrýstingurinn. Ráðríki faðirinn vill að unglingurinn skrifi undir. Ýtni yfirmaðurinn spyr starfsmennina hvort þeir séu ekki búnir að skrifa undir til stuðnings flugvellinum. Meðal annars vegna slíkra atriða er regla að hver og einn kjósandi greiði atkvæði í einrúmi, í opinberum kosningum. Sjáist á seðil hans á leiðinni úr kjörklefanum, er seðilinn ógildur og má ekki fara í kassann.
Með þessu er ekki sagt að slíkar safnanir geti ekki gefið vísbendingu um stöðuna í umræðunni hverju sinni. En öllum tölum verður að taka með fyrirvara. Þar skiptir orðalag fréttamanna og blaðamanna töluverðu máli. Ef þeir segja hreinlega að 12.345 manns hafi „skrifað undir“ tiltekna áskorun þá fullyrða þeir meira en þeir vita. Sýni teljari safnaranna töluna 12.345 þá er í sjálfu sér ljóst að þeir sem hafa í raun „skrifað undir“ eru einhvers staðar frá einum og upp í þessa lokatölu. Að sjálfsögðu eru engar líkur á þvi að talan einn sé rétt, en lokatalan er það ekki heldur. Fréttamaður gæti til dæmis sagt að forsvarsmenn söfnunarinnar segðu að 12.345 hafi skrifað undir. En fréttamaður sem fullyrðir þetta sjálfur er kominn á mjög þunnan ís.
Undirskriftalisti sem ekki er birtur er svo auðvitað ótrúverðugri en sá sem er birtur. Sé listinn birtur með fullu nafni og kennitölu þeirra sem sagðir eru hafa „skrifað undir“, er hann trúverðugri en sá sem hvergi er birtur. Listi sem heitir baráttumenn safna á netinu, og þar sem engin nöfn liggja fyrir opinberlega, er auðvitað ekki eins trúverðugur og sá listi sem felur ekki hverjir eru í raun og veru á bak við töluna.
Eigi undirskriftalistar hins vegar að hafa formlega þýðingu, þá verður auðvitað að fara mun formlegri leiðir við að safna þeim. Þar yrði hver og einn undirskrifari að sanna á sér deili og skrifa undir í einrúmi með sambærilegum hætti og þegar kosið er í opinberum kosningum. Menn geta ekki ætlast til þess að fá að stöðva lög frá Alþingi eða rjúfa þing, með því að ýta á hnapp í tölvunni sinni, í miðju partíi um miðja nótt.