Vefþjóðviljinn 172. tbl. 19. árg.
Eitt það versta við stjórnmálaumræðuna undanfarin misseri er hóphyggjan. Að horft sé á stóran hóp, ímyndaðan eða raunverulegan, og allskyns hlutir sagðir eða gerðir í nafni hans, eða að sögn í þágu hans, en einstaklingunum sem mynda hópinn alveg gleymt.
Eitt algengasta dæmið um hóphyggju undanfarinna ára er ranghugmyndin um Allar konur og Alla karla.
Fréttamenn, stjórnmálamenn, álitsgjafar og fleiri virðast trúa stíft á kenninguna um Allar konur og Alla karla. Að í heiminum standi yfir mikil barátta milli „Allra karla“ og „Allra kvenna“ um skiptingu lífsgæða og „jafnrétti“ verði ekki náð fyrir en þessir tveir hópar heimsins standi „jafnir“.
En þessir hópar eru ekki til, í þeim skilningi að þeir eigi einhverja sameiginlega hagsmuni. Á Íslandi eru ekki tveir hópar, Allir karlar og Allar konur, heldur um 160.000 einstaklingar af hvoru kyni. Þegar meinlokumenn reyna að „jafna metin“ milli þessara hópa, gleyma þeir yfirleitt öllum þessum einstaklingum.
Undanfarið hafa hjúkrunarfræðingar mikið verið í fréttum, enda fyrsta stéttin í sögunni sem hefur orðið fyrir því að verkfall þeirra hefur verið stöðvað með lögum, og sýndi það vanvirðingu feðraveldisins við kvennastéttir. Það er alger misskilningur að til dæmis sjómenn, flugvirkjar, flugumferðarstjórar og flugmenn hafi oft lent í slíku. Langflestir hjúkrunarfræðingar eru konur. Samkvæmt kenningum jafnréttisiðnaðarins og þeirra sem trúa á Alla karla og Allar konur, þarf auðvitað að jafna þau kynjahlutföll.
Nú er auglýst laust starf hjúkrunarfræðings á heilsugæslustöð og tveir sækja um, Njáll og Bergþóra. Þau eru bæði nýútskrifuð úr háskólanum með sambærilega einkunn. Þá segja jafnréttisfræðin að ráða eigi Njál. Það eru miklu færri karlar í stéttinni. Það þarf að jafna kynjahlutföllin.
En hvað með Bergþóru? Hvers vegna á hún að gjalda fyrir það hvernig fyrri kynslóðir völdu sér starf? Hvers vegna á Njáll að græða á því?
Auðvitað ætti hún ekki að gjalda fyrir þetta. En þeir sem trúa á Alla karla og Allar konur hafa náð svo miklum áhrifum í stjórnmálum að hún þarf að burðast með allar fyrri kynslóðir hjúkrunarkvenna á bakinu. Þessu fólki finnst það ekki vera að brjóta á neinum. Þetta fólk sér bara Alla karla og Allar konur, telur svo höfuðin og sér að „það hallar á“ Alla karla, og ræður því karl frekar en konu. Þetta fólk sér ekki einstaklinginn Bergþóru. Það er bara að jafna hlutföllin, því það er „enn langt í land í jafnréttismálum“.
Trúin á Alla karla og Allar konur birtist skýrt hjá þeim sem eru alltaf að hugsa um „launamun kynjanna“. Fyrir þeim fá einstaklingar ekki laun, heldur hóparnir tveir.
Nú er auðvitað mjög ofmetin hugmynd að til séu tveir eins starfsmenn. Einstaklingar hafa ólíka eiginleika, kosti og galla, sem nýtast með ólíkum hætti á vinnustað. Tveir menn með sama starfsheiti eru ekki endilega sams konar starfsmenn. En jafnvel þótt svo væri, ættu menn ekki að gleyma einstaklingunum sem eru á bak við Alla karla og Allar konur.
Í fyrirtæki einu, Feðraveldinu hf., vinna sex deildarstjórar. Hver og einn semur við forstjórann um laun sín og eftir nýjustu samningalotu var staðan þessi:
Gunnar gerði mestar kröfur og náði samningi um 800.000 krónur á mánuði.
Hallgerður komst líka í feitt og fær 775.000 krónur á mánuði.
Gísli má vel við una með 750.000 krónur á mánuði.
Auður veit ekki að auður er valtastur vina og samdi um 725.000 krónur.
Ásgerður setti hnefann í borðið, sagðist ekki fara undir 700.000 krónur og fékk þær.
Vésteinn hefur lægstu launin, 675.000 krónur. Hann er samt sáttur við sitt. Fékk það sem hann bað um. Hefur ekki áhuga á eftirvinnu og tölvupóstum á kvöldin. Vill fjölskylduvænan vinnustað.
Um tíma voru allir glaðir í fyrirtækinu. En svo kom sérfræðingur frá Jafnréttisstofu ríkisins og leit á launaseðlana. Hann sá enga einstaklinga en hins vegar tvo hópa. Og það hallaði greinilega á annan hópinn. Meðallaun karlkyns deildarstjóra reyndust vera um átta þúsund krónum hærri en meðallaun kvenkyns deildarstjóra. Þegar þessi sannleikur spurðist út varð uppi fótur og fit. Fréttamenn króuðu forstjórann af og spurðu hvort hann hefði heyrt um 21. öldina. Þingkonur allra flokka sögðust vera daprar yfir þessu. Samtök atvinnulífsins sögðust skammast sín og hvetja stjórnendur til að jafna þegar launin milli hópanna tveggja.
Og í fyrirtækinu sjálfu var friðurinn úti. Í kaffistofunni hvesstu þær Hallgerður, Auður og Ásgerður augun á Véstein. Það yrðu ekki prjónaðar fleiri peysur á hann. Allar sögðust þær vera að íhuga uppsögn.
Á endanum lét forstjórinn undan og tilkynnti að laun allra kvenna hefðu verið hækkuð um átta þúsund krónur. Hóparnir tveir voru komnir á sömu meðallaun. Launajafnréttið hafði náðst.
Stjórnmálamenn önduðu léttar en sögðu að þetta sýndi að enn væri langt í land. Ríkisstjórnin ákvað að leggja hálfan milljarð í jafnréttissjóð sem nota skyldi til að stórauka kennslu í kynjafræði.