Laugardagur 20. júní 2015

Vefþjóðviljinn 171. tbl. 19. árg.

Á vef Viðskiptablaðsins í morgun sagði frá því að kostnaðaráætlun um jarðgöng við Húsavíkurhöfða hefur hækkað um 1,3 milljarða króna.

Samgönguáætlun 2015-2018 liggur fyrir Alþingi. Þar er kostnaður við jarðgöng undir Húsavíkurhöfða metinn á 3.100 milljónir og hefur hann hækkað um 1.300 milljónir frá fyrstu áætlunum. Í athugasemdum við frumvarp vegna innviðauppbyggingar á Bakka eru jarðgöngin sögð forsenda þess að unnt verði að laða iðnfyrirtæki til svæðisins. Þegar tekjutap vegna skattaafsláttar, þjálfunarstyrkur starfsfólks, styrkur vegna lóðaframkvæmda og útgjöld vegna innviðauppbyggingar séu tekin saman virðist ívilnanir ríkisins vegna iðnaðaruppbyggingar á Bakka, sér í lagi vegna kísilvers PCC, vera orðnar á bilinu 5,7-6,2 milljarðar. Þá er miðað við þær forsendur sem birtast í frumvörpum um ívilnanirnar og nýjasta matið á kostnaði við jarðgöngin.

Ríkisstyrkirnir vegna Bakka voru samþykktir á lokadögum síðasta kjörtímabils. Víst má telja að skattgreiðendur séu ekki búnir að bíta úr nálinni í þessu máli og reikningurinn muni hækka meira en um þessar 1.300 milljónir sem voru að falla á þá til viðbótar vegna jarðganganna.

Meðal þeirra þingmanna sem studdu ekki frumvarp Steingríms J. Sigfússonar um skattfríðindi og ríkisstyrki á Bakka voru tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Sjá má Pétur H. Blöndal alþingismann gera grein fyrir atkvæði sínu hér að ofan og Sigríði Á. Andersen varaþingmann hér að neðan.