Föstudagur 19. júní 2015

Vefþjóðviljinn 170. tbl. 19. árg.

Láglaunafólkið getur átt sig. Enginn hugsaði um það fólk þegar fæðingarorlofslögin voru sett. Ekki frekar en nokkur heldur upp á að fátækir karlmenn fengu kosningarétt fyrir hundrað árum.
Láglaunafólkið getur átt sig. Enginn hugsaði um það fólk þegar fæðingarorlofslögin voru sett. Ekki frekar en nokkur heldur upp á að fátækir karlmenn fengu kosningarétt fyrir hundrað árum.

Í dag eru merk tímamót. Öld er liðin frá því ákveðið var að mun fleiri skyldu hafa kosningarétt en höfðu hann áður. Efnalitlir menn, vistráðnir, þeir sem skulduðu sveitarstyrk og konur yfir fertugu fengu kosningarétt. Þessa er nú minnst víða um land og að verðleikum.

Einstaklingar og einkafyrirtæki ráða auðvitað hverju þau fagna og hverju ekki. En það er sérstakt að hið opinbera horfi bara á einn af þeim hópum sem fengu kosningaréttinn en láti eins og hinir skipti engu máli. Ef marka má opinber hátíðahöld, að ekki sé talað um heimsmynd fjölmiðlamanna, þá snerist 19. júní 1915 eingöngu um konur.

Svo er fróðlegt að fylgjast með því að verkalýðshreyfingin gerir ekkert til að minnast þeirra hópa sem fengu kosningarétt með konunum.

En þetta er ekkert nýtt. Fyrir áratug skrifaði Vefþjóðviljinn af svipuðu tilefni:

Hvenær ætli karlar hafi fengið kosningarétt á Íslandi? En efnalitlir karlar? En vistráðnir karlar? En karlar sem skulduðu sveitarstyrk? Hljóta þeir ekki að hafa fengið kosningarétt einhvern tíma? Samt er aldrei talað um það sem neinn atburð, aldrei rifjað upp að nú sé svo og svo langt liðið frá því efnalitlir karlmenn fengu kosningarétt. En það er sífellt verið að rifja upp afmæli þess að konur fengu kosningarétt. Eða eins og opinber umræða á Íslandi rétttrúnaðarins snýst um: konur, konur konur. …

Hvað halda menn að það líði langur tími milli þess sem hugmyndaheimi feminista er haldið að fólki? Hvað fá menn langa hvíld milli þess sem einhver fullyrðir að ekki sé búið að ná jafnrétti kynja í landinu – og auðvitað án þess að nefna nokkurt einasta dæmi þess að öðru hvoru kyninu sé mismunað í lögum? Hvað líður langur tími milli þess sem haldið er að fólki kenningum um karlasamsæri sem sé ætlað til þess að konur fái lægri laun, falli í prófkjörum eða komist ekki á Búnaðarþing?

Þegar kona fellur í prófkjöri, þá kvartar hún yfir því að konum sé ekki treyst. Engu skiptir hversu margir karlmenn hafa fallið í sama prófkjöri, fall konunnar hlýtur að beinast að kynferðinu en ekki öðrum eiginleikum hennar. Kona sem kemst að því að karlkyns vinnufélagi hennar fær greidd hærri laun, hún heldur að það hljóti að vera vegna þess að hann sé karlmaður en ekki af einhverjum öðrum ástæðum. Ekki að hann hafi einfaldlega gert aðrar kröfur, sem hún hefði sjálf vel getað gert, eða þá að vinnuveitandanum þyki af einhverjum öðrum ástæðum en kynferðinu þess virði að borga honum þessi hærri laun. Kvenréttindafélög fagna því þegar kona er skipuð í starf. Engu virðist skipta hvaða eiginleika aðra hún eða aðrir umsækjendur hafa til að bera; bara að það sé kona.

En hverjum þarf að koma á óvart að starað sé á kosningarétt kvenna en enginn áhugi sé á þeim réttindum sem efnalitlir karlar höfðu áður verið án, en fengu um leið og konurnar? Er það nokkuð úr takti við það sem gerist og gengur nú á dögum? Um hvað snýst hausatalning femínista? Um hvað snúast fréttaskýringarnar og „samfélagsþættirnir“ í Efstaleiti? Ríkið setur kynjakvóta í stjórnir fyrirtækja en ekki í vinnu á smurstöðvum. Það hefur aldrei nein opinber stofnun farið á dekkjaverkstæði og kannað hvort hugsanlega sé einhver launamunur á starfsmönnum þar. Þingmönnum, fréttamönnum og álitsgjöfum er alveg sama um launamun ef hann er ekki milli karls og konu. Það þykir hneyksli að engin kona hafi orðið seðlabankastjóri en ekki að engin kona reki pústverkstæði.

Og hvernig eru fæðingarorlofsreglurnar byggðar upp? Því hærri laun sem fólk hafði áður, því hærri greiðslur fær það úr fæðingarorlofssjóði. Láglaunafólk, atvinnulaust fólk, heimavinnandi, námsmenn, öryrkjar, óvinnufærir, þeir þurfa lítið að mati höfunda laganna. En mannauðsstjórarnir og verkefnastjórarnir, þegar þeir fara í fæðingarorlof þurfa þeir auðvitað meira. Því þeir eru svo góðu vanir.

Þeir sem eru á háum launum og voru því líklega í aðstöðu til að leggja fyrir, þeir fá háar greiðslur. Láglaunafólkið getur átt sig. Enginn hugsaði um það fólk þegar lögin voru sett. Ekki frekar en nokkur heldur upp á að fátækir karlmenn fengu kosningarétt fyrir hundrað árum.

Þeir sem nú njóta kosningaréttar óháð efnahag og kynferði mega í dag samgleðjast í huganum öllum þeim fjölda karla og kvenna, sem kosningarétt fengu í fyrsta sinn fyrir um hundrað árum.