Mánudagur 22. júní 2015

Vefþjóðviljinn 173. tbl. 19. árg.

Það er stundum merkilegt að fylgjast með hvernig þjóðmálaumræðan fer út um víðan völl. Þar virðast staðreyndir oft mega sín lítils fyrir því sem einhverjum „finnst“.

Ótrúlega oft fer fram löng og ómarkviss umræða um mál, án þess að grundvallaratriði þess fáist rædd að nokkru marki.

Dæmi um það var í nýlegu verkfalli lögfræðinga hjá sýslumanni. Þá höfðu fréttamenn engan áhuga á því að sýslumaður sjálfur, og væntanlega staðgengill hans líka, voru alls ekki í verkfalli. Þeir hefðu mátt afgreiða öll mál sem þeim bárust, eins og sólarhringurinn dugði. En þrátt fyrir ótal fréttir um vandræði sem sköpuðust af verkfallinu datt fæstum fréttamönnum í hug að velta þessu upp. Ekki frekar en þeim datt í hug að spyrja innanríkisráðherra hvort hún hefði ekki örugglega séð til þess að sýslumaður reyndi með þessum hætti að takmarka tjón fólks af verkfallinu.

Skýrt dæmi um blindu á aðalatriði var þegar fréttamenn, ekki síst Ríkisútvarpsins, ræddu vandlega um óánægju BHM með það að sýslumaður hefði gefið út tímabundið vínveitingaleyfi vegna árshátíðar í Kópavogi. Jafnvel lokuðustu fréttamenn hefðu þar átt að sjá ástæðu til að fjalla um heimild sýslumanns til að afgreiða erindi í verkfalli og kanna hvort hann væri ekki örugglega að afgreiða erindi eins og hann frekast gæti.

Umræðan um ruddana sem reyndu að spilla hátíðarhöldunum á Austurvelli 17. júní er líka dæmi um hversu erfitt ýmsir eiga með að fjalla um aðalatriði máls. Málið snýst ekki um „rétt til að mótmæla“ eða hvort leyfilegt sé að „mótmæla 17. júní“. Málið snerist um um að haldin var lögmæt samkoma á Austurvelli 17. júní og ruddar reyndu að skemma hana. Þeir máttu alveg „mótmæla“ og þeir máttu „mótmæla 17. júní“. Menn mega bara ekki vera með öskur og hróp þar sem aðrir halda lögmæta samkomu.

Ekki frekar en framsóknarmenn mættu mæta með gjallarhorn og öskra „Sigmundur er æðislegur“, svo ekkert heyrðist í ræðumönnum á lögmætum mótmælafundi.

Þeir sem reyna að verja ruddana frá 17. júní með almennu tali um það megi „víst mótmæla 17. júní“ eða að það sé „full ástæða til að mótmæla“, hafa í raun ekkert fram að færa. Menn mega koma skoðun sinni á framfæri, en þeir hafa ekki takmarkalaust sjálfdæmi um það hvar og hvenær það er gert. Ruddarnir hefðu vel mátt halda útifund allan daginn, annars staðar en á Austurvelli.

Þeir sem verja ruddana frá 17. júní eru í raun að segja að hver og einn eigi að hafa sjálfdæmi um að eyðileggja lögmætar samkomur annarra með hávaða og látum. Það væri gaman að vita hvernig þeir brygðust sjálfir við ef þeirra eigin samkomur yrðu yfirteknar með ruddaskap.

Það þarf auðvitað ekki að taka fram að fréttastofa Ríkisútvarpsins gekk um meðal ruddanna og otaði hljóðnemanum að mörgum þeirra svo þeir fengju að koma kenningum sínum um landsmálin að í fréttatímanum að kvöldi 17. júní.