Helgarsprokið 14. júní 2015

Vefþjóðviljinn 165. tbl. 19. árg.

Undanfarið hefur verið skrifað nokkuð í blöðin um bága stöðu ellilífeyrisþega og sú hugmynd nefnd að ríkið tryggi þeim hverjum um sig að lágmarki 300 þúsund krónur á mánuði. Það er sama krafa og stéttarfélögin gerðu í nýlegum kjarasamningum fyrir fólk í fullri vinnu sem á jafnvel fyrir stórum fjölskyldum að sjá.

Þessi skrif vekja upp  nokkrar spurningar. 

Við hverju býst venjulegur ellilífeyrisþegi þegar hann lætur af störfum og hefur töku lífeyris? Koma greiðslur til hans úr lífeyrissjóði eða Tryggingastofnun mjög á óvart?Gera menn sér almennt nógu góða grein fyrir stöðunni þegar starfslok nálgast? 

Ef að fólk sem komið er yfir sextugt leiðir ekki hugann að þessum málum er auðvitað ákveðin hætta á því að það geri ekki ráðstafanir í samræmi við hina raunverulegu stöðu sína. Og í raun er ekki nóg að leiða hugann að þessu heldur þarf miklu fremur að gera kalt mat á stöðunni.  Hverjar verða greiðslur úr lífeyrissjóði viðkomandi og maka hans, eru aðrar tekjur til staðar til að mynda af eignum, duga tekjur fyrir óbreyttu heimilishaldi eða þarf að draga úr kostnaði, er mögulegt að draga úr kostnaði við húsnæði eða selja aðrar eignir?

Þetta kann að hljóma nöturlega, að efri ár fólks séu sett upp í Excel. Að því ógleymdu að því miður eru dæmi um að fólk hafi ekkert nema bætur frá Tryggingastofnun ríkisins til að setja upp í slíkan töflureikni, en hvorki greiðslur úr lífeyrissjóði, aðrar tekjur né eignir.

Sömuleiðis þykir það vart við hæfi að leggja það til við fólk að það „minnki við sig“ og selji jafnvel hús sem það byggði yfir sig og börnin og hefur búið í um áratugi.

Því er einnig borið við að eldri borgarar hafi greitt skatta alla ævi og unnið sér þannig nokkurn rétt til fjármagns úr ríkissjóði. En ríkissjóður hefur verið og er gegnumstreymissjóður, öllum skatttekjum hefur verið eytt jafnharðan og meiru til og því er sjóðurinn stórskuldugur. Þá geta menn auðvitað lagt til skattar séu hækkaðir á þá sem yngri eru en þá þarf að segja það hreint út og um leið að svara fyrir allar þær neikvæðu afleiðingar sem hækkun á þegar mjög háum sköttum hefði.

Þess vegna er æskilegt að hver sé sjálfum sér sem mest sjálfbjarga við starfslok og hafi gert sér glögga grein fyrir stöðunni löngu áður. Eins og dæmin sanna er ekki hægt að treysta á skuldugan ríkissjóð í þessum efnum.