Mánudagur 15. júní 2015

Vefþjóðviljinn 166. tbl. 19. árg.

Eru hægri menn ekki líka fólk?
Eru hægri menn ekki líka fólk?

Á Ríkisútvarpinu er veruleg pólitísk slagsíða. Ekki á öllum þáttum og ekki alltaf. En þar sem hún er, er hún í eina átt. Hún er til vinstri. Aukið stjórnlyndi, harðari reglur. Fleiri bönn. Skert samningafrelsi. Meiri ríkisútgjöld. Meiri „stuðning hins opinbera“. Harðari aðgerðir í umhverfismálum. Og svo framvegis.

En þótt Ríkisútvarpið sé Íslandsmeistarinn í slagsíðu koma stundum upp keppinautar. Um helgina kom skæður þátttakandi til leiks. „Fundur fólksins“ var haldinn í Norræna húsinu og stóð í þrjá daga. Að fundinum stóðu Norræna húsið, Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, samstarfsráðherra Norðurlanda Eygló Harðardóttir, Reykjavíkurborg, Norræna félagið og Almannaheill.

Og á dagskrá var fjölmargt menningarlegt og fræðandi efni.

Fyrsta ráðstefnudaginn, fimmtudag, var til dæmis boðið upp á:

Klukkan 14:30-15:30 „Pírataskólinn.“

Klukkan 16:00-17:00 „Að brúa kynslóðabilið. Ung vinstri græn og Eldri vinstri græn ræða um stöðu náttúrverndarmála og umhverfismála.“

Klukkan 17:00-18:00 „Hvað er Alþýðufylkingin? Gestir fá tækifæri til að kynnast hvað Alþýðufylkingin stendur fyrir.“

Þennan dag var einnig boðið upp á spennandi umræður undir yfirskriftinni „Nýir mælikvarðar á hagsæld þjóðar“, þar sem Kristín Vala Ragnarsdóttir, Róbert Marshall og Sigurður Jóhannesson velta fyrir sér spurningunni hvort „hagvaxtarmælingar séu úrelt fyrirbæri“.

Næsta dag hófst dagskráin á því að Kristinn Hrafnsson ræddi við Norman Solomon um uppljóstranir og mikilvægi þeirra en svo gátu menn skellt sér á „Umræður um jarðveg, loftslagsmál og náttúrugæði af mannavöldum“, þar sem Andri Snær Magnason stýrði umræðum.

Svo var í boði liðurinn „Formbreyting upplýsinga“ þar sem Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur fjallaði um formbreytingu upplýsinga og Halldór Auðar Svansson borgarfulltrúi Pírata um upplýsingastefnu borgarinnar.

Þar á eftir var fjallað um „Tilnefningar til Náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2015. Sóley Tómasdóttir borgarfulltrúi vinstrigrænna segir frá því hvers vegna Reykjavíkurborg hlaut verðlaunin árið 2014.“ Hefur hún auðvitað kynnt áheyrendum hvað þar bjó að baki.

Svo var á dagskrá liðurinn „Hverjar eru skyldur fjölmiðla í aðdraganda kosninga?“ og töluðu þar Finnur Beck formaður nefndar menntamálaráðherra um aðgang stjórnmálahreyfinga að fjölmiðlum sem skilaði tillögum árið 2013, Heiðar Örn Sigurfinnsson fréttamaður á Ríkisútvarpinu, Heiðdís Lilja Magnúsdóttir lögfræðingur Fjölmiðlanefndar. Jú og einn stjórnmálamaður var valinn til að vera með, Katrín Jakobsdóttir heitir hún.

Einnig var á dagskrá liðurinn „Trúnó á fundi fólksins. Ilmur Kristjánsdóttir borgarfulltrúi Bjartrar framtíðar fer á trúnó með gestum um velferðarmál.“

Frá klukkan 14:30 til 15:30 var svo haldið áfram með „Pírataskólann“.

Þarna var einnig boðið upp á þriggja klukkustunda fróðlega kennslu undir heitinu: Allt sem þú vildir vita um ESB en þorðir ekki að spyrja. Hnitmiðað námskeið, saga og uppbygging/stefna og hlutverk.“ Kennarar voru Eiríkur Bergmann Einarsson fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar og Magnús Árni Magnússon fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar.

Þennan dag var einnig klukkustundar dagskrárliður: „Stefnumót við VG. Kíktu á Vinstrigræn og spurðu þingmenn hreyfingarinnar spjörunum úr.“

Frá klukkan 18 til 19 var fjörið í algleymingi. Þá var dagskrárliðurinn „Baráttusöngvarnir. Félagar í VG syngja baráttusöngva.“

Klukkan 19 þurftu menn hins vegar að fá að borða. Þá hófst dagskrárliðurinn „Diskósúpa. Ungliðahreyfing Slow Food og Vinstri grænna standa fyrir diskósúpu. Diskósúpa er fjörugur viðburður þar sem gestir koma saman og elda úr hráefni sem annars væri fleygt og hlusta á fjöruga tónlist á meðan.“

Þegar allir voru orðnir saddir af matnum úr hráefninu sem annars hefði verið hent, var komið að næsta lið: „Stjórnarskrárfélagið og Píratar standa sameiginlega að sýningu heimildarmyndarinnar Blueberry Soup.“ Umræður við leikstjórann um efni myndarinnar á eftir. Andri Snær Magnason, Katrín Oddsdóttir, Jón Þór Ólafsson og Svavar Knútur taka þátt í umræðunum.

Lokadaginn var margt í boði. Þar má nefna dagskrárliðinn „Borgaralaun. Halldóra Mogensen varaþingmaður Pírata fjallar um borgaralaun.“

Klukkan 14:30 til 15:30 var Pírataskólinn í fullum gangi en klukkan fjögur hófst dagskrárliðurinn „Alþýðufylkingin kennir baráttusöngva“, enda hefði verið brot á hlutleysisreglum þeirra opinberu stofnana sem stóðu fyrir ráðstefnunni ef eingöngu yrðu sungnir baráttusöngvar Vinstri grænna.

Klukkan 16:15 var svo komið að því að leitað yrði svara við stóru spurningunum: „Af hverju erum við Píratar og hvaðan komum við? Birgitta Jónsdóttir ræðir um sögu Pírata.“

Menn þurfa ekki að óttast að trúmálin hafi alveg gleymst. Siðmennt sá um málstofu.

En auðvitað var engin slagsíða á þessari ráðstefnu, ekki frekar en er á Ríkisútvarpinu þegar grannt er skoðað. Klukkan tíu á laugardagsmorgun var nefnilega dagskrárliðurinn „Sjálfstæðisflokkurinn býður til umræðna.“ Þetta voru því þrír eðlilegir dagar, þar sem fram fóru heilbrigðar stjórnmálaumræður, sungnir baráttusöngvar og borðaður útrunninn matur.

Enginn fjölmiðlamaður sér neitt athugavert við þessa dagskrá. Ekki frekar en þeir sjá neitt athugavert við dagskrá Ríkisútvarpsins. En menn ættu að velta fyrir sér viðbrögðunum sem hefðu orðið, ef ráðstefnan, sem fjölmargir opinberir aðilar standa straum af, hefði ekki hallast svona mikið til vinstri, heldur hægri.