Laugardagur 13. júní 2015

Vefþjóðviljinn 164. tbl. 19. árg.

Verkfallsrétturinn er heilagur! 

Já er það?

Verkfallsrétturinn er reyndar að mestu leyti bara eitthvað sem ríkisvaldið bjó til með lagasetningu fyrir stéttarfélög. Hann er ekki meðfæddur réttur einstaklingsins til friðar og frelsis.

Það má auðvitað afnema þau lög sem færa stéttarfélögum „verkfallsrétt“ án þess að réttur væri brotinn á nokkrum manni. Menn hefðu sem fyrr jafn mikið frelsi til að stofna félög og jafn ríkt samningsfrelsi og áður. Líklega heldur meira. Ekki síst einstaklingarnir sem væru lausir undan oki stéttarfélaganna.

Menn geta auðvitað samið um það við sinn vinnuveitanda að þeir geti hætt að mæta í vinnuna án þess að hætta í vinnunni. Farið í verkfall. Ekki er gott að átta sig á hvað slík samningsákvæði myndu kosta. Eða með öðrum orðum hve mikið lægri laun menn fengju gegn því að hafa slíkan „verkfallsrétt.“

„Verkfallsrétturinn“ á sér auðvitað sögulegar skýringar sem liggja að hluta til í því að hinum megin við borðið voru á tíðum viðsemjendur, fyrirtæki og stofnanir, sem höfðu einnig óeðlilega fyrirgreiðslu hins opinbera.

En eitt af því sem hlýtur að koma til skoðunar ef menn vilja draga úr miðstýringu og óeðlilegum afskiptum hins opinbera af einkamálefnum er að afnema öll lög sem stýra stórum hópum manna í „verkföll“ á vegum hinna miðstýrðu ríkisstofnana sem kallast stéttarfélög.