Vefþjóðviljinn 163. tbl. 19. árg.
Bjarni Benediktsson sagði í vikunni að hann vildi vinna að skattalækkunum á næstunni. Það er fagnaðarefni.
Hann sagði einnig að vel þyrfti að huga að réttri tímasetningu skattalækkananna.
Það er hárrétt hjá honum. Svo vel vill til að Vefþjóðviljinn getur upplýst hvenær besta tímasetningin er.
Það vill svo til að hún er einmitt núna.
Vinstrimenn vilja aldrei lækka skatta. Þeim finnst alltaf „tímasetningin“ alröng. Og það eru rangir skattar lækkaðir. Skattalækkunin kemur kannski þeim til góða sem borga mikla skatta. Miklu betra væri að lækka skatta einhverra annarra, og svo framvegis.
Embættismenn vilja ekki lækka skatta. Þeir vilja fá peninga í ríkissjóð, og útdeila þeim svo eftir faglegum reglum.
Stjórnlyndir hagfræðingar vilja ekki lækka skatta. Þeir vilja fá þá í ríkissjóð til að rugla ekki líkönin með einhverju óútreiknanlegu eins og vilja og löngunum hvers og eins skattgreiðanda.
Ein vinsælustu rökin frá því að hræða hægrisinnaða en ofurvarfærna stjórnmálamenn frá skattalækkunum er að segja þeim að skattalækkunin valdi þenslu.
Þetta er þá svona:
Smári smiður tekur alla aukavinnu sem hann getur, smíðar og smíðar frá morgni til kvölds. Hann kemst með hörkunni í efsta skattþrepið, þar sem ríkissjóður tekur af honum 47% af hverri krónu sem hann vinnur sér inn.
Eigum við að lækka skattinn aðeins á Smára, spyr fjármálaráðherra.
Nei, það eykur þensluna, segja embættismennirnir.
Hvað gerum við þá, spyr fjármálaráðherra.
Við skattleggjum hann sem aldrei fyrr, segja embættismennirnir.
Hvað gerum við svo við krónurnar sem við tókum af Smára, spyr fjármálaráðherra.
Við úthlutum þeim. Til dæmis gegnum launasjóð myndlistarmanna eða til að halda jafnréttisþing eða setjum þá í kvikmyndasjóð eða leggjum veg um Gálgahraun eða eitthvað sem veldur ekki þenslu, eins og skattalækkanir gera, segja embættismennirnir.
Já einmitt, bætir seðlabankastjóri við. Það er bara ekki rétti tíminn til að lækka skattinn á Smára, við verðum að hugsa tímasetninguna vel. Við getum ekki látið þennan Smára setja hér allt í uppnám.
Það er hárrrétt hjá þér, segja embættismennirnir. Við verðum að vera faglegir.
Þegar einstaklingur eyðir laununum sínum, þá skapast þensla. Ef ríkið tekur sömu peninga af honum og eyðir þeim, þá skapast ekki þensla.