Vefþjóðviljinn 162. tbl. 19. árg.
Það var kannski óréttmætt að saka Katrínu Júlíusdóttur varaformann Samfylkingarinnar um það hér í gær að hafa ekki áhuga á öðru en hótelreikningum og bílakostnaði ráðherra.
Eins og Vefþjóðviljinn hefur raunar áður sagt frá hefur Katrín flutt tillögu til þingsályktunar undanfarin ár ásamt fleiri þingmönnum Samfylkingar og Pírata/Hreyfingarinnar um „niðurfellingu gjalda á vistvænt eldsneyti.“
Gjöld á vistvænt eldsneyti hafa þó haft slíka undanþágu frá árinu 2010 hvað vörugjöld á eldsneyti varðar og frá 2012 hvað kolefnisgjald varðar.
Slíkar undanþágur hafa þannig staðið ótímabundnar í lögum frá 2010. Þær má auðvitað afnema hvenær sem er með lögum. Þingsályktunartillaga myndi engu breyta þar um.
Til hvers er ítrekað lögð fram þingsályktun um það sem þegar er í lögum?