Helgarsprokið 31. maí 2015

Vefþjóðviljinn 151. tbl. 19. árg.

Hvað hafa íslenskir skattgreiðendur gert á hlut Þorsteins Pálssonar fyrrverandi samningamanns vinstri stjórnarinnar um aðild Íslands að ESB?

Ekki er langt síðan Þorsteinn gerði sitt ítrasta til að Icesave-skuldir Landsbankans við breska fjármagnseigendur yrðu hengdar á íslenska skattgreiðendur. Þótt Þorsteinn hafi á þeim tíma starfað hjá Jóhönnu og Steingrími við að koma Íslandi inn í Evrópusambandið hefði hann átt að hafa dómgreind til að skilja trúmennskuna við vinstri stjórnina og þráhyggjuna um ESB aðild frá Icesave-málinu. ESB beitti Íslendinga miklum þrýstingi til að gangast í ábyrgð fyrir skuldir einkabankans og öllum mátti vera ljóst að málið gæti haft áhrif á framvindu aðildarviðræðna vinstri stjórnarinnar við ESB. Það var því auðvitað engin tilviljun að flestir þeir sem vildu koma Íslandi inn í Evrópusambandið voru jafnframt tilbúnir til að fallast á að íslenskir skattgreiðendur yrðu gerðir ábyrgir fyrir Icesave skuldunum. Þorsteinn reyndist engin undantekning hvað það varðar. Þorsteinn taldi fyrri þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave vera markleysu og að réttast væri að hætta við hana. Það var línan frá Jóhönnu og Steingrími. Þegar kom að síðari þjóðaratkvæðagreiðslunni reyndi Þorsteinn að fá stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins til að styðja ánauðina. Fæstir þeirra fóru að þeim ráðum Þorsteins heldur áttu almennir sjálfstæðismenn stærstan þátt í því að fella ánauðina í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Þorsteinn var gestur í Vikulokum Ríkisútvarpsins í gær. Þar var rætt um kjarasamninga og lækkunina sem ríkisstjórnin hefur boðað á tekjuskatti einstaklinga sem er aðeins afturköllun á broti þess sem Jóhanna og Steingrímur hækkuðu skattinn.

Um þessi tíðindi sagði Þorsteinn:

Forsætisráðherra sagði fyrir nokkrum dögum að það kynni að þurfa að hækka skatta. Og ég er ekki alltaf sammála forsætisráðherranum en ég var sammála honum í því mati. Það voru aðvörunarorð sem áttu fullan rétt á sér. En það sem hann gerir er að koma með þessa gífurlegu skattalækkun og ég var mest hissa á því í gær að ríkisstjórnin skyldi ekki tilkynna um leið hvernig þetta ætti að fjármagna og hélt nú kannski að þeir ætluðu að geyma það og leyfa Vigdísi [Hauksdóttur] að skýra frá því í þættinum hér í dag en ég varð aftur fyrir vonbrigðum að sú skýring kom ekki. Þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál og dregur mjög úr trausti á því að hér sé áfram verið að stefna að fjármálastöðugleika.

Það er ekki nóg með að Þorsteinn sé andvígur því að lækka skatta á almenning heldur telur hann miklu fremur ástæðu til að hækka skattana og hafa þá þar með hærri en Jóhanna og Steingrímur skildu við þá. Hann er jafnvel til í að gera undantekningu frá því að vera ósammála forsætisráðherra til að ná þessari skattahækkun fram. Þorsteinn vill svo fá að vita hvernig „fjármagna“ á skattalækkunina, rétt eins og ríkissjóður sé að gefa launamönnum þessar krónur sem ekki verða hirtar af þeim. Því er auðsvarað. Ríkissjóður getur „fjármagnað“ þessa peninga sem hann fær ekki í kassann með sama hætti og aðrar krónur sem hann tekur ekki af almenningi.  Og er það nú alveg víst að það stefni „fjármálastöðugleika“ frekar í hættu að almenningur fái að halda launatekjum sínum en að stjórnmálamenn ráðstafi þeim?

En líklega var ekki von á öðru en að Þorsteinn mótmælti þessum skattalækkunum á launafólk í útvarpinu í gær. Steingrímur hafði gert það sama í fyrradag.