Laugardagur 30. maí 2015

Vefþjóðviljinn 150. tbl. 19. árg.

Þær eru leiðinlegar fréttirnar sem berast af Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA. Forystumenn vestrænna knattspyrnusambanda eru slegnir, fjölmiðlar eru slegnir, þjóðarleiðtogar eru slegnir.

Þetta kemur alveg eins og þruma úr heiðskíru lofti.

Menn höfðu auðvitað haldið að ekkert væri óeðlilegt við það að ákveðið yrði að heimsmeistaramót í knattspyrnu yrði haldið í Qatar. Þetta er gamalgróið knattspyrnuland. Flestir knattspyrnuáhugamenn hafa lengi fylgst spenntir með deildinni í Qatar, og flestir hér á landi kannast við skemmtilegan ríg í vinahópnum milli stuðningsmanna einstakra liða. Menn töldu að fullkomlega eðlilegar ástæður væru fyrir því að halda heimsmeistaramót í landi þar sem hitinn á sumrin fer í fimmtíu gráður. Auðvitað ofureðlilegt að mótið yrði fært aftur í desember, vegna aðstæðna í Qatar. Það er ekki eins og slíkt valdi raski á mótum í neinu aðildarlandanna. Hvern gat grunað að eitthvað væri óeðlilegt við að úrslitaleikur heimsmeistaramóts yrði leikinn rétt fyrir jól?

Qatar er ekki land sem lætur peningana tala. Þetta er sómakært íþróttaríki. Það náði meira að segja silfurverðlaunum á nýafstöðnu heimsmeistaramóti í handknattleik, eftir að hafa lagt mikla rækt við unglingastarfið áratugum saman.

Auðvitað gat engum dottið í hug að neitt grunsamlegt byggi að baki.

Slíkt tíðkast ekki í „alþjóðastofnunum“. Þær eru faglegar stofnanir þar sem eðlilegar ákvarðanir eru teknar en ekki spillingarbæli þar sem margmútaðir fulltrúar héðan og hvar úr heiminum koma saman og kjósa einhvern sem heldur áfram að ausa í þá peningum.

Svo heyrast fréttir af því að forseti FIFA haldi áhrifum sínum með því að dreifa peningum og mótssætum til ríkja þar sem slíkt þykir eðlileg skiptimynt fyrir atkvæði á allsherjarþingi.

Slíkt er alveg óþekkt í alþjóðastofnunum.