Vefþjóðviljinn 137. tbl. 19. árg.
Útgáfa ríkivaldsins á gjaldmiðli, lögeyri, er ein tegund gjaldeyrishafta. Ríkið kemur í veg fyrir að menn njóti samkeppni á þessu sviði og þeirra framfara sem hún hefur í för með sér. Eða eins og F.A Hayek orðaði það:
Þegar við horfum um öxl, sjáum við, að flestir siðir okkar og hættir hafa orðið til við úrval eða þróun; þeim, sem reyndust betur, var haldið áfram, hinum hafnað. En þetta átti ekki við um peninga. Þar var ekki um að ræða neitt úrval, neina þróun, neina samkeppni ólíkra siða. Valdsmenn komu þegar í upphafi auga á það, hversu gagnlegir peningar gátu orðið þeim, svo að þeir tóku sér einkaleyfi á framleiðslu þeirra.
Svo er stundum hert verulega á þessum höftum með því að meina landslýð að skipta lögeyrinum í aðra gjaldmiðla.
Það var gert á Íslandi haustið 2008 og átti að vera tímabundin ráðstöfun eins og svo margar ráðstafanir ríkisvaldsins eru sagðar þegar þær eru kynntar.
Nú er liðið á sjöunda ár.
Engin leið er að segja til um af hvaða tækifærum Íslendingar misstu á þessum árum vegna haftanna. Þau hafa hamlað úrvali og þróun. Háttum sem verr hefðu reynst og verið hafnað án haftanna hefur verið haldið áfram. Aðrir hafa ekki staðið til boða.
Og líkt og Jón Daníelsson hagfræðingur benti á nýlega þorir líklega enginn stjórnmálamaður að afnema höftin af ótta við að krónan falli í verði og það muni bitna á honum og flokki hans í næstu kosningum.