Mánudagur 18. maí 2015

Vefþjóðviljinn 138. tbl. 19. árg.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt til að borgarstjórn óski eftir því við alþingi að sveitarfélög fái að ráða hvernig þau haga reglum um hollustuhald, í þeim tilgangi að borgin geti leyft veitingahúsum að heimila gestum sínum að koma með gæludýr sín með sér á veitingahúsið.

Í viðtali sagði Hildur Sverrisdóttir borgarfulltrúi að þetta væri frelsismál.

Það er talsvert til í því.

En þetta leiðir hugann að öðru máli, sem er ekki minna frelsismál. Það mál er meira að segja nokkurs konar stjórnlyndispróf fyrir marga. Það er bannið við því að eigendur veitingahúsi leyfi gestum sínum að reykja. Ekki hefur komið fram í fréttum hvort borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa eitthvað við það bann að athuga, sem má þó telja nokkuð víst, því ekki er það minna frelsismál.

Aðalatriðin í reykingabannsmálinu er að það er húseigandinn sem á að setja húsreglurnar en ekki gestir hans. Enginn er neyddur inn á kaffihús eða veitingastað annars manns. Ef einhverjum líkar ekki við reykinn á staðnum, eða tónlistina sem þar er spiluð, lyktina í anddyrinu, viðmót þjónanna, verðið á tebollunum eða ískrið í stólunum, þá ræður hann hvort hann kemur aftur á staðinn. Sumt líkar mönnum ekki, sumt setja þeir fyrir sig en annað ekki.

En það er veitingahúseigandinn sem á að ráða því hvort hann býður upp á heita eða kalda rétti, tónlist eða þögn, reykleysi eða leyfðan reyk, hlaðborð eða matseðla, dúkuð borð eða bera borðplötu, og svo framvegis.

Já en sígarettureykur getur skaðað mig, leiðinleg tónlist getur það ekki, segir þá einhver. Já það getur verið rétt. En þá eiga menn þess kost að fara ekki á þá veitingastaði þar sem þeir búast við heilsuspillandi efnum. Rétt eins og þeir eru ekki neyddir til að vinna á verkstæði þar sem búast má við vafasömum efnum. Það er margt sem getur skaðað heilsu manna. Diesel-útblástur getur til dæmis gert það en samt er ekki enn bannað að aka Dieselknúnum bílum á almannafæri. Áfengi hefur heldur betur skaðað marga, en samt er enn leyft að selja það á sömu veitingastöðum og ekki má finnast tóbaksilmur.

Það er ömurlegt að finna tóbakslyktina í fötum sínum daginn eftir skemmtun, segir annar. Það er mikill munur eftir að reykingarnar voru bannaðar, segir þriðji. Nú finn ég bara ilminn af sjálfum mér þegar ég þefa af fötunum mínum. Já, þetta getur allt verið. En það veitir ríkinu engan rétt til að banna fólki að reka veitingastað sem leyfir reykingar.

Málið er mjög einfalt. Gísla langar til að opna veitingastað sem býður upp á nautasteik, kartöflur og vindil á eftir. Eirík langar mikið til að eiga ljúfa kvöldstund á slíkum stað. Hvaða rétt á Helgi til að banna þeim það?

Skiptir einhverju máli þótt Helga langi til að fara á veitingastað sem selur nautasteik og kartöflur en bannar vindlareykingar? Kemur þeim Gísla og Eiríki eitthvað við þótt einhver Helgi vilji ekki finna tóbakslykt af fötunum sínum?

Á Helgi einhverja kröfu á því að Gísli reki fyrir hann reyklausan veitingastað? Á Helgi einhvern rétt á því að banna Eiríki að fara á veitingastað sem Gísli vill reka fyrir hann?

Eini rétturinn sem Helgi á í málinu er að fara ekki á staðinn til Gísla.

Ef Helgi vill meiri rétt en þann, þá er hann skammarleg frekja.