Vefþjóðviljinn 126. tbl. 19. árg.
Nú stendur yfir myndun taugatitrings vegna svonefnds makríl-frumvarps. Þar heyrist það sama og oft er haldið að fólki: Það er verið að gefa „fiskinn okkar“. Afhenda „auðlindina okkar“. Og það sem verst er, það er verið að gera þetta til sex ára í senn.
Og svo er farið að safna netundirskriftum.
Það er auðvitað hefðbundinn misskilningur að „þjóðin“ eigi fiskinn í sjónum. „Þjóðin“ á ekki neitt og getur ekki verið eigandi neins. Og enginn á fiskinn í sjónum, nema helst hann sjálfur. Fiskurinn syndir sína leið, þar til einhver eignast hann með því að veiða hann í net sitt. „Sameign íslensku þjóðarinnar“ þýðir ekki annað en að nýta ber fiskimiðin á hverjum tíma þannig að framtíðarnot þeirra verði alltaf tryggð, eins og er í valdi manna að stjórna því. Kvótakerfið er ekki í meiri andstöðu við „sameign þjóðarinnar“ en svo, að þessi sameign kom inn í lög í sjálfum kvótalögunum.
Það sem nú æsir marga upp, er að gert er ráð fyrir að heimildum til makrílveiða verði úthlutað til sex ára í senn en ekki eins árs. Vefþjóðviljinn hefur ekki sérstaka skoðun á því til hversu langs tíma í senn úthluta ber slíkum heimildum, en auðvitað verða menn að hafa í huga að raunveruleg togaraútgerð kostar gríðarlegt fé, skip eru til dæmis smíðuð fyrir milljarða króna, og þeir sem þetta gera þurfa að geta gengið að veiðiheimildum vísum um einhvern tíma, ef þeir eiga að geta stundað útgerðina af viti. Og hver ætlar að taka að sér að eltast við næstu tegund sem flækist inn í lögsöguna ef þeir sem það gera njóta þess í engu?
Með því að úthluta leyfi til makrílveiða til sex ára eru menn ekki að afhenda eigur „þjóðarinnar“, og ekki eigur ríkisins, til margra ára.
En menn hafa hins vegar stundum samið um slíka hluti.
Þegar stjórnmálamenn og þrýstihópur sameinuðust um það eftir bankahrunið að láta skattgreiðendur reisa tónlistarhöll, eins og ekkert hefði gerst í efnahagslífinu, var beitt þeirri aðferð að láta hið opinbera gera samning við einkaaðila um að greiða milljarð króna á ári, í nokkra áratugi, til húsbyggingarinnar. Þar voru menn að ráðstafa raunverulegum eigum ríkisins og ekki til eins kjörtímabils eða til sex ára. En þá var ekki efnt til mótmæla. Þá var ekki safnað netundirskriftum og Ríkisútvarpið sagði ekki frá því á hverjum degi hvernig gengi að safna.
Þá var bara samið um milljarð á ári í þrjátíu ár.