Mánudagur 20. apríl 2015

Vefþjóðviljinn 110. tbl. 19. árg.

Jo Nesbø. Mynd: Håkon Eikesdal. jonesbo.com.
Jo Nesbø. Mynd: Håkon Eikesdal. jonesbo.com.

Norðmaðurinn Jo Nesbø er meðal vinsælustu spennusagnahöfunda á Norðurlöndum. Í bók hans, Afturgöngunni, hugsar ein persónan með sér, í þýðingu Bjarna Gunnarssonar:

Norðmenn kusu Verkamannaflokkinn af því að hann var búinn að gera réttinn til að skrópa í vinnunni að mannréttindum. Hver í fjandanum kýs ekki flokk sem gefur manni þrjá fría veikindadaga í mánuði, opinbert leyfi til að hanga heima … fara á skíði eða ná sér eftir fyllerí? Verkamannaflokkurinn vissi að sjálfsögðu hvers konar rugl þetta var en reyndi samt að þykjast ábyrgur, skreytti sig með frösum eins og „við höfum nú trú á fólki yfirleitt“ og lét eins og í skróparéttinum fælust einhverjar samfélagslegar umbætur. Þá var nú Framfaraflokkurinn skömminni til skárri þó að hann keypti sér atkvæði með skattalækkunum, þar á bæ voru menn í það minnsta heiðarlegir og voru ekkert að þykjast skárri en þeir í rauninni voru.

Sú persóna bókarinnar sem hugsar þetta er raunar ekki alveg til fyrirmyndar. En það er rétt hjá henni að nokkuð margt er orðið að mannréttindum. Þannig lýsti formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness því fyrir skömmu  hvernig yfir hann var hellt svívirðingum eftir að hann og félagar hans höfðu unnið það þrekvirki að gefa öllum grunnskólabörnum á landinu sérstök gleraugu til að fylgjast með sólmyrkva. Í frétt Morgunblaðsins sagði meðal annars:

Síðustu daga fyrir myrkvann stoppaði ekki síminn hjá mér og tölvupósturinn fylltist. Ég náði ekki að svara helmingnum,“ segir Sævar. „Við ákváðum fyrst og fremst, af því að við fengum ekki stuðning frá neinum fyrir þetta verkefni nema Hótel Rangá, sem við erum afskaplega þakklát fyrir, að hugsa þetta verkefni fyrir grunnskólanemendur og grunnskólakennara líka, og færa þeim öllum gleraugu. En svo til að reyna að leyfa leikskólanum að vera með ákváðum við að senda öllum leikskólum á Íslandi gleraugu.
Við sendum þeim kannski 3-5 gleraugu og útskýrðum að við vildum óska að við gætum gert miklu meira en við hefðum ekki ráð á því og svo framvegis. Þetta væri alla vegna viðleitni okkar til að leyfa fólki að vera með og gerði því kleift að skiptast á og horfa.
En þá fékk maður bara gusuna yfir sig; að þetta væri ömurlegt og algjör vonbrigði og ótrúlega lélegt og vð værum að gera þeim bjarnargreiða og í furðulegasta tilvikinu var talað um mannréttindabrot fyrir að mismuna grunnskólabörnum og leikskólabörnum,“ segir Sævar.
Um var að ræða símhringingar frá leikstólastjórnendum og -kennurum, en Sævar vill taka skýrt fram að honum bárust einnig fjölmargar jákvæðar hringingar frá leikskólastarfsfólki sem var afar ánægt með framtakið og fór að ráðum félagsins um að leyfa krökkunum að skiptast á.