Helgarsprokið 19. apríl 2015

Vefþjóðviljinn 109. tbl. 19. árg.

image
image

Fyrir rúmri viku ritaði Guðmundur Edgarsson málvísindamaður eina af sínum ágætu greinum í Fréttablaðið. Hann lagði út af grein sem Jón Gnarr fyrrverandi borgarstjóri hafði skrifað nokkru fyrr um sorphirðu í borginni. Jón hafði í grein sinni talið grunnatriði sorphirðu snúast um það hvort sorptunnur væru sóttar inn á lóðir til borgarbúa eða íbúar þyrftu sjálfir að trilla þeim út á gangstétt kvöldið áður en sorphirða færi fram. Jón hafði séð síðarnefndu stefnuna í framkvæmd í Houston og vill að Reykjavíkurborg fylgi í kjölfarið því það sé „munúðarsósíalismi“ að tunnur séu sóttar inn á lóðir.

Jón virðist ekki sjá sorphirðu fyrir sér með öðrum hætti en að hið opinbera sinni henni og ákveði með einni skipun að ofan hvort tunnur séu sóttar inn á lóðir eða við lóðamörk.

Um þetta segir Guðmundur:

Forvitnilegt er að velta þessum ummælum Jóns fyrir sér frá sjónarhóli frjálshyggjunnar. Vilja frelsisunnendur að ruslið sé sótt upp að dyrum eða trilla með tunnurnar kvöldið áður? Vilja þeir frekar að tunnan sé losuð fjórum sinnum á mánuði eða þrisvar? Svarið er: hvorki né eða bæði og! Með öðrum orðum, spurningarnar er merkingarlausar.

Allt eins má spyrja: Vill fólk sækja pizzuna eða greiða aukalega fyrir þann munaðarsósíalisma að fá hana heimsenda? Eða: Vill fólk stóra pizzu eða miðlungs? Með tveimur eða þremur áleggstegundum? Brauðstangir? Mergur málsins er jú sá, að fólk er mismunandi og af því þurfa rekstraraðilar sorphirðuþjónustu að taka mið, rétt eins og pizzustaðirnir hafa gert alla tíð.

Spurningin snýst því ekki um hvort sorptunnur allra Reykvíkinga eigi að sækja upp að dyrum eða hversu oft eigi að losa þær heldur hvers vegna er komið fram við þá eins og hjörð af ósjálfstæðum verum þegar um sorphirðu er að ræða, en þroskaða einstaklinga með sjálfstæða hugsun þegar kemur að pizzum. Svarið er, að sorphirða er rekin undir pólitísku kerfi, en pizzustaðir undir markaðskerfi. Pólitískt kerfi felur í sér að þjónusta á þess vegum sé slík kjarnorkuvísindi að einungis stjórnmálamönnum sé treystandi til að meta hvað neytendum sé fyrir bestu. Í slíku kerfi er gert ráð fyrir að þarfir og langanir fólks séu nokkurn veginn eins og því sé réttast að aðeins einn aðili sjái um þjónustuna. Með öðrum orðum, þjónusta undir pólitísku kerfi felur í sér einokun. Á hinn bóginn felur þjónusta undir markaðskerfi í sér samkeppni, val, fjölbreytni og stöðugar nýjungar.

Þótt Jón Gnarr sjái eitthvað sem hann telur sniðugt í Houston er ekki víst að öllum í Reykjavík falli hugmyndin í geð og vilji að borgarstjórn troði henni upp á sig. Jón þarf að temja sér meira umburðarlyndi gagnvart fjölbreytninni.

Guðmundur lýkur grein sinni á þessum orðum:

Ef sorphirða fengi að njóta sín á markaði í stað þess að festast í fjötrum miðstýringar og einokunar er ljóst að fjölbreytnin yrði meiri, bæði hvað þjónustuna snertir og verð. Kannski væri komið sorphirðufyrirtæki á markaðinn sem byði þeim sem flokkuðu endurnýtanlega sorpið að losa tunnurnar endurgjaldslaust. Kannski mundu einhver fyrirtæki bjóða upp á garðhirðu og sorphirðu og kúnninn fengi afslátt, nýtti hann sér hvort tveggja. Kannski kæmu fram á sviðið litlir verktakar, sem undirbyðu stóru sorphirðufyrirtækin og sótthreinsuðu tunnurnar í leiðinni. Enginn getur sagt með vissu hvernig sorphirða myndi þróast væri hún rekin á markaðsforsendum. Við höfum þó eina sterka vísbendingu: hvert sem litið er hafa framfarir orðið örari og nýjungar tíðari á þeim sviðum þar sem frelsi og samkeppni hefur ríkt en þar sem einokun hefur verið í fyrirrúmi. Það er því engin furða að pizzur séu vinsælar.