Vefþjóðviljinn 102. tbl. 19. árg.
Eitt af því sem vinstrisinnaðir álitsgjafar tala mikið um, hér á landi og annars staðar, er „misskiptingin“, að eignir dreifist sífellt ójafnar. Fleiri og fleiri eigi ekkert, aðrir verði stöðugt ríkari.
Eitt af því sem haldið er fólki, er að það eigi að taka upp „nútímalegan lífsstíl 21. aldar“. Hver þarf að eiga bíl, þegar hann getur hjólað í vinnuna og gengið svo á kaffihúsið? Í aðrar ferðir geta menn farið á strætó. Almenningssamgöngur eru ferðamáti hins upplýsta manns á 21. öldinni, er fólki oft sagt. Hver þarf að fara nákvæmlega þá leið sem hann vill, þegar honum hentar? Er ekki bara fínt að fara í opinberan vagn sem ekur þá leið sem embættismenn hafa valið, eftir tímaáætlun sem þeir hafa sett saman. Eða ekki eftir tímaáætluninni?
Annað sem er borið lofi, er að reyna ekki að eignast fasteign. Hvers vegna að binda sig fastan á einum stað? Skulda langtímalán. Vill ekki upplýsti nútímamaðurinn vera sveigjanlegur? Leigja í stuttan tíma í einu. Fara svo til útlanda og læra meira og drekka í sig menninguna. Iðandi mannlíf.
Það er algengt að vinstrimenn hafi lítinn áhuga á því að fólk eignist fasteign. Ein ástæðan er kannski hin frekar almenna óvild vinstimannsins í garð einkaeignarréttar. Sá sem leggur mikið á sig til að koma sér upp eigin þaki yfir höfuðið, verður hugsanlega heldur meiri stuðningsmaður einkaeignarréttar fyrir vikið. Hann gæti jafnvel farið að taka oftar afstöðu með skattgreiðendum frekar en þeim sem vilja ná meiru út úr skattgreiðendum.
Eini ráðherra Samfylkingarinnar vill auðvitað helst að sem flestir leigi. Að leiga, frekar en kaup eigin eignar, verði freistandi kostur fyrir sem flesta.
Auðvitað eru aðstæður fólks ólíkar. Sumir eru í þeirri stöðu að eiga núna engan raunverulegan möguleika á að eignast fasteign. Öðrum hentar kannski alls ekki að leggja út í fasteignaviðskipti, svo sem vegna annarra áætlana sinna á næstu árum, og svo framvegis.
En öruggt húsaskjól er engu að síður meðal allra brýnustu nauðsynja mannsins, ekki síst þeirra sem hafa aðra á framfæri sínu. Auðvitað er mikið öryggi í því fólgið að eiga sjálfur heimili sitt og þurfa ekki að hafa áhyggjur af leigusalanum, þróun á leigumarkaði, eða öðrum slíkum hlutum.
Það er því oft svolítið merkilegt að heyra þá, sem segjast bera hag hins almenna vinnandi manns fyrir brjósti, tala gegn því að menn reyni að eignast eigið húsnæði.
Stundum má sjá glitta í almenna hugmyndafræði manna bak við tal þeirra um húsnæðismál. Hvaða hugsun er þeim eðlileg, hvaða hugsun framandi? Finnst þeim eðlilegt að fjölskyldan leggi mikið á sig við að spara, greiða inn á íbúð og borga niður lán. Finnst þeim að húseigandi eigi sjálfur að ráða sínu húsi, og þar með ráða því hvort hann leigir það út og þá hvaða skilmála hann felst á við leiguna? Finnst mönnum eðlilegt að ríkið ráði þeim skilmálum? Finnst mönnum sjálfsagt að sem allra flestir borgarar eigi fasteignina sína, en séu ekki leigutakar eða búsetturéttarhafar? Eru menn mjög áhugasamir um alls kyns bætur og félagsleg réttindi? Vaxtabætur? Húsaleigubætur?
Að sjálfsögðu er það ekki svo að neitt sé ámælisvert við það að leigja sér húsnæði. Það er ekkert að því að menn velji þann kost. Mikill fjöldi fólks leggur til dæmis mikið á sig, vinnur langan vinnudag fyrir lítil laun og sparar flest við sig, til að eiga fyrir síhækkandi húsaleigu. Leigjendur eiga að geta borið höfuðið hátt, alveg eins og húseigendur.
En hvað ætti ríkið að gera í „húsnæðismálum“? Eitt það mikilvægasta er að leggja ekki steina í götu fólks, hvaða kost sem það ætlar að reyna að taka. Ríkið á að draga úr skattheimtu á vinnandi fólk, svo það eigi meira eftir í launaumslaginu um mánaðamótin. Því minna sem fólk er skattlagt til að niðurgreiða áhugamál annnrra, því meira hefur það eftir til að greiða eigin nauðsynjar. Og ríkið á að forðast íþyngjandi reglur, sem gera fólki erfitt fyrir á húsnæðismarkaði, bæði eigendum og leigjendum.
Á síðasta kjörtímabili breytti umhverfisráðherra byggingarreglugerð þannig að byggingarkostnaður jókst umtalsvert. Auðvitað kemur það niður á þeim sem eru að leita sér að íbúð. Sá sem byggir sér hús, þarf að greiða meira fyrir það. Það þýðir að færri hús verða byggð. Leiguverð hækkar, því sá sem byggði húsið þarf að fá meira inn af leigunni til að eiga fyrir byggingarkostnaðinum.
Auðvitað hefur nýr umhverfisráðherra ekki breytt byggingarreglugerðinni til baka. Hann hefur ekki haft nema tæplega tvö ár til þess. Núverandi ríkisstjórn breytir engu sem vinstristjórnin gerði. Henni tekst varla að afturkalla eina inngöngubeiðni í Evrópusambandið skammlaust.
Vinstristjórnin hækkaði fjármagnstekjuskattinn. Hann leggst á húsaleigutekjur. Auðvitað hækkar leigusalinn leiguna, þegar skattahækkunin leggst á leigutekjurnar hans.
Þetta eru aðeins tvö dæmi um nýlegar opinberar aðgerðir sem gera húsnæðismarkaðinn erfiðari fyrir fólk. En sjaldan heyrist að starfshóparnir í „velferðarráðuneytinu“ leggi til að þessu verði breytt.
Og ekki gerir núverandi ríkisstjórn það. Hún þorir engu að breyta sem Jóhönnustjórnin gerði.