Vefþjóðviljinn 100. tbl. 19. árg.
Flokksþing Framsóknarflokksins var sett í dag. Undanfarna daga hafa fjölmiðlar birt fréttir af því hvað flokksmenn leggi til að verði ályktað á þinginu, enda er það skiljanlegt. Hvað sem mönnum finnst um Framsóknarflokkinn þá er hann annar tveggja ríkisstjórnarflokka og því skiptir máli hvað hann ályktar á flokksþingi sínu.
Vegna þess að ályktanir æðstu samkomu flokkanna skipta máli. Þær skipta auðvitað enn meira máli rétt fyrir kosningar, þegar æðsta samkoman ákveður hvað lagt skuli áherslu á í kosningabaráttu og við stjórnarmyndun ef til kemur. En jafnvel á miðju kjörtímabili skiptir máli hvað ályktað er á flokksþingum.
Enda dettur fáum í hug að slíkum ályktunum sé hægt að breyta skömmu síðar, ef fréttamenn verða nógu aðgangsharðir í viðtali.
Nema í eitt skipti. Fréttamenn láta sumir eins og stefnu Sjálfstæðisflokksins hafi þannig verið breytt skyndilega milli landsfundar og kosninga vorið 2013.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins tók skýrt af skrarið með það að Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki gera hlé á meðferð inngöngubeiðnarinnar í Evrópusambandið heldur afturkalla hana. Um það væri engin þörf að halda þjóðaratkvæðagreiðslu, enda var það augljóst þar sem inngöngubeiðnin hafði líka verið send án þjóðaratkvæðagreiðslu. Formaður flokksins tók fram að þjóðaratkvæðagreiðsla kæmi ekki til greina nema aðildarsinnaðir flokkar næðu meirihluta í þingkosningum. Sjálfstæðisflokkurinn myndi ekki standa fyrir neinni þjóðaratkvæðagreiðslu.
Svo gerðist það að nokkrir menn urðu æfir en þeir fengu samfelld fréttaviðtöl við sig. Fréttamenn byrjuðu að hamast á einstökum frambjóðendum, með þeim árangri að nokkrir þeirra létu undan og töluðu í nokkrum viðtölum á annan hátt en ákveðið var á landsfundinum, þar sem á annað þúsund manns höfðu komið saman til að kjósa forystu og móta stefnu.
Og fjölmiðlar hafa í tvö ár látið eins og í sjónvarpsviðtölunum hafi verið gefin bindandi loforð, en ekkert hafi gerst á landsfundinum. Sjálfsagt sé að kasta fyrir róða öllu því sem landsfundur hafi ákveðið um stefnu flokksins, en það sem sagt er á nokkrum sekúndum í sjónvarpsviðtölum séu óhagganleg loforð sem öllu taki fram.
En dettur einhverjum í hug að þeir létu svona, ef þetta hefði farið á annan veg? Ef landsfundur hefði ákveðið að flokkurinn styddi inngöngu í Evrópusambandið en eftir kosningar yrði þeirri skýru niðurstöðu ekki fylgt, af því að einhver forystumaður hafði því miður sagt eitthvað annað í viðtali?
Þá dytti engum í hug að sjónvarpsviðtalið ætti að ráða en ekki landsfundarsamþykktin.