Vefþjóðviljinn 99. tbl. 19. árg.
Tilskipanir ESB um endurnýjanlegt eldsneyti og sú sérhagsmunaútgáfa sem leidd var í lög hér á landi árið 2013 virðast óþrjótandi uppspretta neikvæðra afleiðinga. Gríðarlegur kostnaður við innkaup á lífolíum, orkusóun, aukin eyðsla í bílvélum, skógareyðing, hærra matvælaverð, hungur og aukin mengun eru nokkrar þær helstu.
Nýjasti fylgikvillinn birtist fyrir páskana í frumvarpi umhverfisráðherra um breytingar á efnalögum. Verði frumvarpið að lögum verða bensínstöðvar skyldaðar til að setja upp frásogsbúnað eða gufugleypa við bensíndælur. Og hvers vegna skyldi nú þurfa að gera það?
Í greinargerð með frumvarpinu segir:
Frumvarpinu er í fyrsta lagi ætlað að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/ 126/ESB frá 21. október 2009 um II. áfanga endurheimtar bensíngufu við eldsneytistöku fyrir vélknúin ökutæki á bensínstöðvum. Markmið með tilskipuninni er að draga úr loftmengun og bæta loftgæði með því að draga úr losun bensíngufu út í andrúmsloftið. Gerð er krafa um gufugleypibúnað á bensínstöðvum sem á að koma í veg fyrir að aukin losun á rokgjörnum lífrænum efnum frá íblönduðu eldsneyti hafi skaðleg áhrif á heilsu fólks og umhverfi.
Hér er því verið að reyna að taka á þeirri auknu mengun sem verður á bensínstöðvum þegar endurnýjanlegu eldsneyti eins og alkóhóli (etanóli eða metanóli) er blandað í bensín. Við þessa spíraíblöndun snarhækkar gufuþrýstingur bensíns og uppgufun við dælingu á bíl eykst.
Á hinn bóginn hafa Sigríður Á. Andersen, Frosti Sigurjónsson og Willum Þór Þórsson lagt fram frumvarp sem myndi fresta hinum skaðlegu áhrifum laga um endurnýjanlegt eldsneyti til ársins 2020 og veita íslenskum stjórnvöldum ráðrúm til að fá undanþágu frá þessum ósköpum. Liechtenstein, sem er EFTA ríki eins og Ísland, hefur þegar fengið slíka undanþágu.