Miðvikudagur 8. apríl 2015

Vefþjóðviljinn 98. tbl. 19. árg.

Karl Garðarsson þingmaður Framsóknarflokksins vill banna svonefnda launabónusa í fjármálafyrirtækjum. Lítið eignastýringarfélag mun þá ekki mega greiða 800 þúsund krónur í laun og 200 þúsund í bónus ef vel gengur en hins vegar fær það líklega leyfi þingmannsins til að greiða tvær milljónir í laun þótt allt stefni í óefni.

Í Kastljósi Ríkisútvarpsins í kvöld færði Karl meðal annars þau rök fyrir banninu að þegar fjármálafyrirtæki færu sér að voða þyrftu skattgreiðendur að bera tjónið. 

Hvort ætli hafi nú óæskilegri áhrif á hegðun bankamanna, hinir umtöluðu bónusar eða sú útbreidda trú manna, sem þingmaðurinn elur á, að þegar bankar verði afvelta rétti ríkið þá af?

Það ætti einnig að vera Karli og öðrum ríkisafskiptasinnum umhugsunarefni að þegar bankar lenda í vandræðum eru helstu rökin fyrir að ríkið taki þá upp á arma sína og bæti tjónið einmitt þau að ríkið hafi séð um eftirlitið og sett reglurnar um hvernig bankamenn eigi að hegða sér.

Eru menn búnir að gleyma áróðrinum úr Icesave málinu þar sem reynt var að sannfæra íslenska skattgreiðendur um að þeir bæru ábyrgð á innstæðunum því Landsbankinn hefði starfað eftir íslenskum lögum og undir íslensku eftirliti?