Þriðjudagur 7. apríl 2015

Vefþjóðviljinn 97. tbl. 19. árg.

Það er víðar en í Evrópu sem lífeldsneyti er til umræðu. Vestan hafs flytja þingmenn úr báðum flokkum nú frumvörp um að aflétta skyldunni til að nota slíkt eldsneyti. Umhverfisverndarsamtök lýsa yfir áhyggjum af því að lífeldsneytið auki á mengun. Og almennar áhyggjur eru af áhrifum þess á matvælaverð að brenna matjurtum í bílvélum. 

En þrýstingurinn frá etanólframleiðendum í landbúnaðarríkjum Bandaríkjanna er mikill. Frá því var sagt í The Wall Street Journal í mars:

Á landbúnaðarráðstefnunni í Iowa fyrr á mánuðinum lýstu flestir þeir sem sækjast eftir því að verða forsetaframbjóðendur Repúblíkana yfir stuðningi við lögin um endurnýjanlegt eldsneyti (Renewable Fuel Standard) sem er þó eitt versta dæmið um pilsfaldakapítalisma í Ameríku. Þessi lög ýta undir etanólframleiðendur í Bandaríkjunum með því að þvinga eldsneytisframleiðendur til að blanda lífeldsneyti í bensín. Þrátt fyrir að lögin séu augljós ríkisaðstoð við einkafyrirtæki gera fáir áhugamenn um dvöl í Hvíta húsinu athugasemd við þau, því þeir vilja ekki draga úr möguleikum sínum í forvalinu í Iowa.

Áhrifin sem landbúnaðarríkið Iowa hefur á afstöðu frambjóðenda til hinnar umdeildu skyldu að blanda lífeldsneyti í bensín er ógnvænleg. Þar við bætist að etanólframleiðendur vörðu 158 milljónum dala (21 milljarði króna) í alls kyns þrýsting á stjórnmálamenn á árunum 2007 til 2013. Framleiðendurnir þrýstu á um beina ríkisstyrki, skattaívilnanir og reglur á borð við RFS.

Og á þessum þrýstingi er ekkert lát. Í janúar lýsti framkvæmdastjóri Iowa Renewable Fuels Association því yfir að samtökin myndu verja milljónum dala í lobbýisma sem „yrði væntanlega öflugasta sókn fyrir ákveðið málefni í sögu forvalsins í Iowa“.