Mánudagur 6. apríl 2015

Vefþjóðviljinn 96. tbl. 19. árg.

Píratar þurfa að senda fulltrúa á nefndarfund til að sækja flokkslínuna. Annars sitja þeir hjá.
Píratar þurfa að senda fulltrúa á nefndarfund til að sækja flokkslínuna. Annars sitja þeir hjá.

Ein grundvallarregla í íslenskri stjórnskipun er sú að alþingismennirnir 63 eru sjálfstæðir í störfum sínum. Þótt menn starfi saman í þingflokkum þá er hver og einn þingmaður algerlega sjálfstæður. Þessi regla kemur meira að segja fram í sjálfri stjórnarskránni, og er raunar oft vitnað til hennar: „Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína…“ 

Í þessu ljósi var merkilegt að fylgjast með vörn Pírata, þegar sagt var frá því í fréttum að þingmenn þeirra sætu allra þingmanna mest hjá, í atkvæðagreiðslum.

Þeir hafa gefið þá skýringu að þingmenn þeirra séu svo fáir. Þeir geti ekki sinnt öllum nefndarfundum og sett sig inn í öll mál. Einn þingmanna flokksins sagði í viðtali að félagar hans í þingflokknum hefðu „stundum fylgt þeim flokkum sem þau treysta í málaflokknum“, þannig að þau hefðu bara greitt atkvæði eins og einhverjir aðrir.

Hvað eru þeir í raun að segja? Að ef þingmenn þeirra væru fleiri gæti þingflokkurinn sent fulltrúa á fleiri nefndarfundi og hann gæti svo sagt hinum hver afstaða Pírata ætti að vera til málsins?

Auðvitað velta fréttamenn þessu ekkert fyrir sér. 

En aðrir hljóta að hafa gaman af því, að mesta raunverulega flokksræðishugsun kjörtímabilsins virðist hafa komið í ljós, og það hjá þingmönnum Pírata.

Þeir, af öllum mönnum, virðast samkvæmt þessu ekki líta svo á að þingmennirnir 63 eigi að vera sjálfstæðir í störfum og hver og einn ábyrgur fyrir sinni afstöðu.