Föstudagur 3. apríl 2015

Vefþjóðviljinn 93. tbl. 19. árg.

Þótt stjórnmálamenn láti stundum eins og endurvinnsla sé eitthvað sem þeir kynntu nýlega fyrir furðu lostnum almenningi hefur hún auðvitað verið stunduð frá ómuna tíð.

Stærstu og skilvirkustu endurvinnslur samtímans eru einkaframtak á borð við Ebay og Bland.

Og ólíkt þeirri endurvinnslu sem ríkisvaldið skikkar menn til hefur hin sjálfsprottna endurvinnsla ekki sóun verðmæta í för með sér. Hún þarf einfaldlega að standa undir sér til að eiga sér stað. Hún þarf að skila hinum endurunnu hlutum til þeirra sem geta nýtt þá með hagkvæmum hætti. Það er nokkuð annað en þegar stjórnmálamenn seilast í vasa skattgreiðenda til að hefja til að mynda söfnun á verðlitlum pappír og flutning á afrakstrinum til annarra landa til endurvinnslu.

Í þættinum „Um land allt“ á Stöð 2 30. mars var sagt frá fyrirtæki austur í Flóa sem á stóran þátt í því að á nokkrum árum hefur hlutfall endurnýttra varahluta í bíla aukist mjög. Eigendur fyrirtækisins leggja áherslu á að um sé ræða endurvinnslu sem verðskuldi viðurkenningu sem slík.

Bílapartasölur hafa auðvitað verið til hér á landi í áratugi en hingað til hefur þeim ekki verið hossað sem endurvinnslum, hvað þá grænni starfsemi eða umhverfisvænni, eins og hinni niðurgreiddu endurvinnslu á pappír á vegum bæjarfélaga.

Þótt fyrr hefði verið.