Laugardagur 4. apríl 2015

Vefþjóðviljinn 94. tbl. 19. árg.

Bæði heimilisofbeldi og hefndarklám eru refsiverðir verknaðir.
Bæði heimilisofbeldi og hefndarklám eru refsiverðir verknaðir.

Á mánudaginn var sagt frá því hér að þingmenn Bjartrar framtíðar hafa lagt fram frumvarp um að hefndarklám verði gert refsivert. Í tillögunni er gert ráð fyrir að við hefndarklámi geti legið allt að tveggja ára fangelsi. En dómstólar hafa þegar dæmt menn fyrir hefndarklám eftir lögum þar sem refsiramminn er fjögur ár. Eini sýnilegi tilgangur frumvarps þingmanna Bjartrar framtíðar virðist því að lækka refsirammann fyrir hefndarklám úr fjórum árum í tvö.

Þetta minnir á ítrekaðar fréttir úr einu lögregluumdæmi sem hefur mikið talað opinberlega um baráttu sína gegn heimilisofbeldi. Þeim fréttum fylgir oft krafa um að heimilisofbeldi verði gert refsivert samkvæmt hegningarlögum og einhvern tíma bárust fréttir af því að velviljaðir þingmenn ætluðu að leggja fram frumvarp um þetta áríðandi mál.

Staðreyndin er sú að ofbeldi er refsivert. Hvers kyns líkamsárásir varða við hegningarlög, bæði þær sem eiga sér stað inni á heimilum og utan þess. Og í hegningarlögum er sérstaklega tekið fram að ef náin tengsl eru milli brotamanns og fórnarlambsins þá þyngi það refsinguna. Þannig að allt ofbeldi inni á heimilum er refsivert samkvæmt hegningarlögum.