Vefþjóðviljinn 92. tbl. 19. árg.
Ýmsir blaðamenn hafa misst fótanna undanfarna daga vegna frumvarps Sigríðar Á. Andersen og Birgis Ármannssonar þess efnis að núgildandi lög um hljóðritun símtala gangi jafnt yfir alla landsmenn að því leyti að upplýsa beri menn um það ef símtöl þeirra eru hljóðrituð.
Í Fréttablaðinu í gær fóru tveir blaðamenn mikinn um efni frumvarpsins eða öllu heldur um ímyndað efni þess. Í frétt blaðsins sagði í fyrirsögn að þingmennirnir „vilji saminga til að vitna megi í hljóðupptökur“. Svo var lagt út af þessum misskilningi í slúðurdálki blaðsins og talið að af þessari samningagerð hlytist mikil skriffinnska „með stöflum af hljóðritunarsamkomulögum upp um alla veggi“. Með öllum stóryrðunum og rangfærslunum voru að sjálfsögðu birtar myndir af þingmönnunum.
Það má þó segja blaðamönnunum Fréttablaðsins til hróss að í blaðinu í dag biðjast þeir velvirðingar á rangfærslunum. Þar segja blaðamennirnir í skilmerkilegri yfirlýsingu:
Á þessum stað og víðar í gær var það fullyrt að í frumvarpi Sigríðar Andersen og Birgis Ármannssonar væri þess krafist að undirritaður yrði samningur á milli fjölmiðlafólks og viðmælenda áður en upptaka á viðtali gæti farið fram. Svo er ekki. Aðeins er farið fram á að viðmælendum sé kynnt að hljóðritun fari fram og ekkert sem kallar á samþykki þeirra fyrir hljóðrituninni sem slíkri, enda fælist það í áframhaldandi samtali ef um slíkt yrði að ræða. Beðist er velvirðingar á þessum rangfærslum.