Vefþjóðviljinn 86. tbl. 19. árg.
Ríkisstofnanir eru orðnar svo mjög margar og stórar að erfitt er að hrófla við þeim vegna mikilla hagsmuna starfsmanna einstakra stofnana og sameiginlegra hagsmuna ríkisstarfsmanna. Hagsmunir skattgreiðenda og neytenda verða alltaf undir í baráttunni við ramma sérhagsmunina.
ÁTVR er „gott“ dæmi um þetta.
Ríkið gæti sparað stórfé í rekstri, losað sig við verslunarrými en haldið sömu tekjum og áður af áfengisgjöldum með því að leyfa einkafyrirtækjum að taka við þessari sölu á löglegri neysluvöru sem langflest fólk getur umgengist af viti.
En nei, þá mætir strollan af ríkisstofnunum, allt frá Landlækni til Rannsóknastofnunar í barna- og fjölskylduvernd, og mótmælir því harðlega.
Og ekki sakar að ríkið rekur einnig útvarps- og sjónvarpsstöðvar og vefmiðil sem samviskusamlega segja frá hinum faglegu álitunum.
Í morgun blasti það við landsmönnum á RÚV.is að fyrrnefnd „fræðistofnun“ um barna- og fjölskylduvernd hefði „skotið niður áfengisfrumvarp“ og er þar átt við frumvarp Vilhjálms Árnasonar um að leyfa smásölu áfengis. Í áliti þessarar merku fræðistofnunar segir:
Fulltrúar fjármagns og gróðasjónarmiða hafa haft slík áhrif í samfélagi okkar undanfarið að þjóðarógn stafar af – og gerir enn. Rökstuðningur fyrir þessu frumvarpi speglar verðmætamat og hagsmunaáherslur sem einkenna þessi sömu markaðsöfl. Hér má heyrasjónarmið talsmanna óheftrar frjálshyggju og skeytingaleysis um gildi mannauðs og barnaverndar.
Þar hafa menn það. Útgefið af fræðistofnun við Háskóla Íslands og útvarpað um landið af útvarpi ríkisins: Frjálshyggjumenn eru skeytingarlausar skepnur sem telja hagsmuni barna léttavæga.
Það er hin fræðilega afstaða stofnunar, sem af lítillæti kennir sig við börn og fjölskyldur, til atvinnufrelsis þeirra sem vilja þjóna neytendum með sölu áfengra drykkja.