Vefþjóðviljinn 85. tbl. 19. árg.
Staðan er Ísland 75 – Holland 5. En við töpum samt.
Nei þetta er ekki upprifjun á Icesave málinu þótt sá ásetningur vinstri stjórnarinnar að leggja óþörf og ósanngjörn útgjöld á þjóðina komi vissulega við sögu.
Um 75% af orkunotkun á Íslandi er annað með endurnýjanlegum orkugjöfum. Í Hollandi er þetta hlutfall 5%.
Engu að síður eru í gildi lög á Íslandi um endurnýjanlegt eldsneyti sem þvinga Íslendinga til að kaupa endurnýjanlega orkugjafa dýrum dómum frá útlöndum. Einkum er um að ræða svonefnt lífeldsneyti en svo vill til að það er flutt hingað frá Hollandi.
Það er óskiljanleg þvæla að land sem stendur í fremstu röð í heiminum við nýtingu hagkvæmra endurnýjanlegra orkugjafa leggi þær skyldur á sjálft sig að kaupa óhagkvæma endurnýjanlega orku frá landi sem nýtir nær enga slíka.
Vegna þessara laga eru nú fluttir tugir milljóna lítra af dýrum lífolíum til Íslands frá Hollandi. Ríkissjóður Íslands niðurgreiðir þessi innkaup um 70 til 80 krónur á hvern lítra með skattaívilnun sem rennur að mestu til seljanda lífolíunnar ytra.
Lífolíur eru almennt unnar úr akurplöntun á borð við maís og repju. Þessa akra hefði mátt nýta til að framleiða matvæli í veröld þar sem margir svelta. Að hluta leiðir lífolíuræktunin til þess að matjurtaræktun flyst annað, jafnvel þarf að ryðja skóga eða ræsa fram votlendi vegna hennar sem leiðir til mikillar losunar gróðurhúsalofttegunda.