Helgarsprokið 22. mars 2015

Vefþjóðviljinn 81. tbl. 19. árg.

Umhverfissinnar mótmæla lífeldsneyti í Brussel. Myndin er af vef ActionAid.
Umhverfissinnar mótmæla lífeldsneyti í Brussel. Myndin er af vef ActionAid.

Eins og sagt var frá nýlega á þessum vettvangi stefnir nú allt í að Evrópusambandið snúi algerlega við blaðinu þegar kemur að kröfunni um lífeldsneyti. Hingað til hefur sambandið krafist þess af aðildarríkjum sínum að þau noti að lágmarki 10% lífeldsneyti árið 2020 en nú gæti það breytt kröfunni í 5% að hámarki! Það sem Brusselbáknið taldi áður svo gott fyrir umhverfið að skylda yrði menn til að nota það þykir því nú svo slæmt að mönnum verður bannað að nota það.

Dr. Ian Duncan er skoskur þingmaður á Evrópuþinginu. Hann skrifaði nýlega um afglöp Evrópusambandsins hvað lífeldsneytið varðar. Greinin er birt á vef AECR, samtaka evrópskra hægriflokka. Þar sagði hann meðal annars:

„Árið 2008 var sagt frá því í blaðafréttum að 45 ára gömul Aston Martin bifreið Karls Bretaprins gengi fyrir vínanda og Range Rover bíllinn hans á matarolíu. Á þessum tíma var lífeldsneyti í tísku, bæði lífetanól (vín) og lífdieselolía (matarolía). Með hliðsjón af áhyggjum manna víða um lönd af loftslagsbreytingum hljómaði það vel hægt væri að bruna áfram á einkabílnum sem knúinn væri slíku kolefnishlutlausu eldsneyti. Nær fjórðungur útblásturs gróðurhúsalofttegunda í Evrópu er nefnilega frá samgöngum. Evrópusambandið setti því markmið: 10% af eldsneyti í samgöngum skyldi vera lífeldsneyti eigi síðar en árið 2020.

Það er almenn regla í lífinu að þegar eitthvað hljómar of vel til að vera satt, þá er það raunin. Markmið ESB um lífeldsneytið veitti fjárfestum ákveðið öryggi og bændur fengu rausnarlega styrki til ræktunar á réttum plötunum til framleiðslunnar. Það var því ekki að undra að mikil lífeldsneytisbóla blési út. Innan áratugar höfðu 17 milljónir hektara verið lagðir undir ræktun á lífolíuplöntum. Jurtir á borð við maís, sykurrey, repju og soja urðu skyndilega algengar í Evrópu. Akurlendi undir repjuræktun jókst um 200% á áratug.
Lífeldsneytisbólan var ekki bundin við Evrópu. Víða um heiminn voru skógar ruddir, lífeldsneytisjurtum plantað og lífeldsneyti framleitt. Í Malasíu spratt upp pálmaolíuframleiðsla sem er nú um 39% af heimsframleiðslunni og 44% af milliríkjaverslun með pálmaolíu.

Hinar óvæntu afleiðingar af þessari stefnumörkun voru tvíþættar. Um leið og meira land fór undir ræktun á lífeldsneytisplöntum minnkaði land undir ræktun á matjurtum, sem vænta má að leiddi það annað hvort eða bæði til matarskorts eða hækkunar á matarverði. Það er ekki síður óæskilegur fylgifiskur þessarar stefnu að oft á tíðum þarf  meiri orku til að rækta plöntuna, eins og pálma, en hægt er að kreista úr henni með lífolíuframleiðslu. Þetta á sérstaklega við þegar fella þarf regnskóga fyrir akuryrkjuna. Eyðing regnskóga er hörmung út af fyrir sig, en þar fyrir utan eru tré kolefnisgeymsla og með því að fella þau er aukið á losun gróðurhúsalofttegunda sem var þó vandamálið sem átti að leysa.

Þessi stefna sem er ætlað að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda mætir andstöðu hjá nær öllum umhverfisverndarsamtökum. Jafnan þegar um að ræða atkvæðagreiðslur um umhverfismál er ég hvattur mjög til þess af umhverfissamtökum að styðja málið. Það á ekki við um þetta mál. Undantekningarlaust hafa grænu þrýstihóparnir almenna andstyggð á lífeldsneyti og alveg sérstaklega á stefnu Evrópusambandsins hvað það varðar.

ESB setti sér upphaflega það markmið að lífeldsneyti skyldi vera að lágmarki 10% af eldsneyti í samgöngum árið 2020 en nú hefur sambandið algerlega snúið við blaðinu og lagt til 5% hámark á lífeldsneytið. Hér er því fyrra markmið helmingað og í stað þess að setja lágmarkskröfu er sett hámarkskrafa. Fyrr í dag samþykktu nefndarmenn í umhverfisnefnd Evrópuþingsins, meðvitaðir um að hámark mun fækka störfum í lífeldsneytisbransanum, að draga mörkin við 6% í stað 5%. Og nú er enginn ánægður. Lífeldsneytisiðnaðurinn, sem fékk áður þau skilaboð frá ESB að lífeldsneyti væri framtíðin, telur sig hafa verið svikinn. Umhverfissinnar telja sig einnig hafa verið svikna með því að hámarkið varð ekki 5% heldur 6%. Umhverfissinnar líta á hvert prósent sem eftirgjöf á hagsmunum umhverfisins.“

Því miður leiddi hreina vinstristjórnin gömlu útgáfuna af stefnu Evrópusambandsins í lög hér á landi rétt fyrir kosningar 2013. Það hefur leitt til innflutnings á þúsundum tonna af lífeldsneyti sem blandað er í hefðbundið eldsneyti hér á landi með miklum gjaldeyrisútgjöldum fyrir Íslendinga.

Enginn skilur hvers vegna núverandi iðnaðarráðherra vindur ekki ofan af þessari löggjöf sem jafnvel Evrópusambandið sem stofnaði til hennar hefur viðurkennt að var glapræði.