Laugardagur 21. mars 2015

Vefþjóðviljinn 80. tbl. 19. árg.

Nokkrir þeirra „frjálslyndu“ þingmanna sem virðast eiga erfitt með að styðja frumvarp um aukið atvinnufrelsi.
Nokkrir þeirra „frjálslyndu“ þingmanna sem virðast eiga erfitt með að styðja frumvarp um aukið atvinnufrelsi.

Fyrir alþingi liggur lítið frumvarp sem myndi leyfa áhugasömum vítt og breitt um landið að bjóða áfenga drykki til sölu í verslunum sínum. Er þetta nú mikilvægasta málið í dag, spyrja margir. Hvað með skuldavanda heimilanna, vanda leigjenda og stöðu hinna efnaminnstu?

Auðvitað mun þetta mál ekki umbylta lífi hins almenna manns. Og því er ekki ætlað það. Þetta er frumvarp um aukið atvinnufrelsi. 

Og þetta frelsi mun án efa skipta allnokkra einstaklinga mjög miklu máli. Þeir munu fá leyfi til að spreyta sig á því að þjóna náunganum; finna ný gæðavín á góðu verði, veita góð ráð og þjónustu, kynna íslenska áfengisframleiðslu fyrir ferðalöngum og svo allt hitt sem enginn veit hvað verður fyrr en frelsið verður veitt.

Frelsi þessara manna til atvinnu er ekkert ómerkilegra en atvinnufrelsi annarra.
Það kemur því spánskt fyrir sjónir að ýmsir þingmenn sem þykjast stundum frjálslyndir virðast ekki ætla að styðja frumvarpið. Á vefnum Vínbúðin.com má sjá hvaða þingmenn ætla að styðja atvinnufrelsið, hverjir ekki og hverjir telja þetta mál svo stórt og flókið að þeir treysta sér ekki enn til að taka afstöðu til þess.