Vefþjóðviljinn 65. tbl. 19. árg.
Á dögunum lýsti Karl Garðarsson þingmaður Framsóknarflokksins óánægju sinni með kaup á listaverki fyrir 27 milljónir króna, fyrir væntanlegt fangelsi á Hólmsheiði. Samkvæmt gildandi lögum á ríkið að verja 1% af byggingarkostnaði nýrra bygginga til listskreytinga þar. Karl segist vera andvígur því og þeim peningum yrði betur varið í annað.
Ríkisútvarpið ákvað að fjalla um þetta mál í gær. Og hverja ætli Ríkisútvarpið hafi fengið til að skiptast á skoðunum um málið? Stofnunin á samkvæmt lögum að gæta hlutleysis og ekki hampa einu sjónarmiði umfram önnur. Í kynningu þáttarins sagði:
Víðsjá veltir fyrir sér hlutverki listar í almannarýmum í dag. Samkvæmt ákvæði í myndlistarlögum ber ríki að verja að minnsta kosti 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberrar nýbyggingar til listaverka. Menn hafa velt fyrir sér hvort slík ráðstöfun sé sjálfsögð á þrengingatímum í ríkisrekstri eða óþarfa munaður, Katrín Jakobsdóttir alþingismaður og Hlynur Helgason lektor í listfræði við Háskóla Íslands velta vöngum yfir þessum málum í þætti dagsins.
Til að ræða málið, undir stjórn starfsmanns Ríkisútvarpsins, er með öðrum orðum valinn Hlynur Helgason lektor í listfræði og til að sjónarmið stjórnmálamanna heyrist er fengin Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna. Menn geta svo ímyndað sér hvaða afstöðu þátttastjórnandinn hafði í málinu.
Einn svona þáttur er ekkert stórmál. En þetta er bara svo algengt. Það er ótrúlega oft slagsíða í Ríkisútvarpinu og hún er ótrúlega oft í sömu áttina. En starfsmennirnir sjá fæstir neitt athugavert. Þeir halda í raun og veru að allt sé eðlilegt. Þeir eru bara að tala við áhugavert fólk. Varla ætlast menn til að þeir fari að kalla á öfgamenn í viðtöl.
En það er vitanlega dæmigert að þátturinn, þar sem sífellt er verið að ræða við fólk sem er í meginatriðum sammála umsjónarmönnum, kallar sjálfan sig Víðsjá.