Vefþjóðvljinn 64. tbl. 19. árg.
Eldri borgarar á Íslandi, 67 ára og eldri, eru 39 þúsund talsins. Ansi stór hópur kjósenda þar.
Eldri borgara hafa með sér myndarleg samtök af ýmsu tagi, jafnt á landsvísu þvert á stjórnmálaflokka sem innan stærstu flokkanna, sem vinna ötullega að hagsmunamálum þeirra.
Margir hafa líka atvinnu, beint og óbeint, við að veita öldruðum þjónustu. Þeir skipta sjálfsagt þúsundum. Stór hluti þeirra starfar á vegum hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga.
En nú er komin fram tillaga til þingsályktunar um að með því að fjölga þeim ríkisstarfsmönnum sem sinna öldruðum um einn til viðbótar verði mikil tíðindi og straumhvörf fyrir aldraða. Ríkisstarfsmaðurinn á að vísu að bera hið virðulega starfsheiti umboðsmaður aldraðra svo ekki verður hann á umönnunartaxta.
Verði slíkt embætti stofnað á kostnað skattgreiðenda dregur það úr líkum á því að skattar lækki, eins og svo margt annað smálegt í ríkisrekstrinum. Háir skattar á bæði tekjur, hvort sem er atvinnutekjur eða lífeyri, og nauðsynjavörur, koma illa við marga, unga sem aldna.