Vefþjóðviljinn 63. tbl. 19. árg.
Í vikunni var sagt frá því að Tryggingastofnun hefði verið gert að fjarlægja ábendingahnapp af vefsvæði sínu, en þar hafi verið mögulegt að senda stofnuninni nafnlausar ábendingar um bótasvik. Samkvæmt lögum um persónuvernd ættu menn rétt á að vita hvaðan upplýsingar um þá kæmu.
Þetta leiðir hugann að tvennu. Í fyrsta lagi að þeirri ákvörðun að ríkið kaupi upplýsingar um eignir Íslendinga í svonefndum skattaskjólum, en upplýsingarnar munu vera stolnar og seljandinn nafnlaus.
Í öðru lagi leiðir þetta hugann að svonefndum „fíkniefnasíma“, en lögreglan hefur lengi auglýst símanúmer sem menn geta hringt í og gefið upplýsingar um fíkniefnasölu.
Stjórnmálamenn og álitsgjafar höfðu uppi stór orð um mikilvægi þess að kaupa upplýsingarnar um skattaskjólin. Allt hik stjórnvalda hlyti að vera af því að vinir fjármálaráðherrans væru auðvitað á listanum. Sjálfsagt myndu stjórnmálamenn alls ekki vilja loka fíkniefnasímanum, ef þeir yrðu spurðir.
Hvað ætli stjórnmálamönnum þyki um ábendingar um bótasvik? Ætli verið geti að mörgum þeirra þyki bótasvik kannski ekkert svo alvarlegur hlutur? Eða þeim þyki kannski að ekki megi um þau tala, til að koma ekki „óorði á bótakerfið“?
Ólögleg skattaundanskot eru lögbrot sem á að berjast gegn. Sama má segja um bótasvik. Löggjafinn á að setja skynsamlegar og almennar reglur um þær aðferðir sem beita má í baráttu við þessi afbrot. Þessi mál á að ræða æsingalaust. Það tekst ótrúlega sjaldan.