Vefþjóðviljinn 29. tbl. 19. árg.
Ný ríkisstjórn tók við í Grikklandi í vikunni. Hana leiðir flokkur róttækra vinstrimanna sem fékk um þriðjung atkvæða en næstum hreinan meirihluta í þingkosningunum um síðustu helgi. Ein skýring þessa er að samkvæmt grískum kosningalögum fær sá flokkur, sem flest atkvæði hlýtur, aukalega fimmtíu þingmenn fyrir það. En róttæki vinstriflokkurinn náði samt ekki hreinum meirihluta en gekk til samstarfs við flokk sem sagður er á móti fjölgun innflytjenda í landinu og andvígur „fjölmenningarsamfélagi“, sem yfirleitt þykir einhver allra versta skoðun sem hægt er að hafa.
Hvernig var það í Svíþjóð á dögunum? Rúmlega 13% Svía ákváðu að kjósa svokallaða Svíþjóðardemókrata, og það fannst fjölmiðlamönnum og álitsgjöfum hryllilegt. Þeir voru mjög harðir á því að enginn mætti starfa með þeim. „Það verður að einangra Svíþjóðardemókratana“ sögðu álitsgjafar, hver í kapp við annan. „Það má ekki gefa þau skilaboð að þeir séu stjórntækir.“
Borgaralegu flokkarnir í Svíþjóð fylgdu þessu dyggilega og því situr nú minnihlutastjórn vinstrimanna við völd. Menn töldu nefnilega þingsætin og komust að því að vinstriflokkarnir voru með fleiri þingsæti en hægriflokkarnir og því skyldu vinstrimenn fá að mynda stjórn. Við þessa talningu var þess að sjálfsögðu gætt að þingsætin sem studdu voru við 13% fylgi Svíþjóðardemókrata teldust ekki með. Fyrst máttu þeir ekki fara í stjórn, af því að þeir voru „öfgahægrimenn“, en þegar átti að meta hvort „vinstriblokkin“ eða „hægriblokkin“ hefðu fengið fleiri þingsæti og fengi því að mynda minnihlutastjórn, þá voru öfgahægrimennirnir í Svíþjóðardemókrötum ekki lengur hægrimenn.
Þetta rifjast upp þegar menn fylgjast með umræðum um stjórnarskiptin í Grikklandi. Nú kvarta fáir yfir því að einhver hafi gengið til samstarfs við þá sem styðja ekki „fjölmenningu“ eða vilja takmarka straum innflytjenda. Nú er engin krafa um að slíkur flokkur sé einangraður. Nú er ekki hneyksli ef hann kemst í námunda við valdastólana. Ætli það geti verið að nú leiddi þessi flokkur róttækan vinstriflokk til valda? Ætli skýringin geti verið að sú krafa sé gerð að hægrimenn starfi ekki með slíkum flokki, en hins vegar megi róttækir vinstrimenn auðvitað gera það sem þeim sýnist?