Vefþjóðviljinn 21. tbl. 19. árg.
Undanfarnar vikur hefur mikið verið fjallað um slæma þjónustu ferðaþjónustu fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu, en félagið Strætó, sem sveitarfélögin reka, hefur tekið að sér þjónustuna. Nýlega var tekið upp nýtt kerfi, sem sagt var að myndi stórbæta þjónustuna, en árangurinn hefur verið sá að fatlaðir segja núna samfelldar sögur af langri bið eftir bíl og algeru óskipulagi á öllu.
Í gær var sagt frá því að Strætó hefði, til þess að bæta þjónustuna enn frekar, sagt upp öllum starfsmönnum fyrra þjónustuvers, þar á meðal þremur sem sjálfir eru bundnir hjólastól og þekkja þannig vel til þjónustunnar og þess sem farþegarnir þarfnast.
Hvernig ætli yrði látið ef Strætó væri einkafyrirtæki? Ef einkafyrirtæki hefði um áramótin tekið að sér að sinna þessu hlutverki og allt væri síðan í algerum ólestri og grátandi fatlaðir biðu og biðu eftir bíl sem aldrei kæmi? Ætli álitsgjafar hefðu mörg orð um að þetta sýndi hvernig færi þegar einkaaðilum væri leyft að græða á grunnþjónustunni?
Hversu oft hafa menn ekki heyrt slíkar reynslusögur? Hversu marga kollega hefur BSRB ekki flutt inn til að halda fyrirlestur um það hvernig allt hefur farið úrskeiðis þegar einhverjum öðrum en opinberum starfsmönnum var leyft að sinna einhverju einhvers staðar?
Auðvitað geta allir klúðrað málum, eins og þeir hjá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu virðast hafa gert í þessu máli. Þetta dæmi sannar ekki að opinber rekstur sé alltaf vonlaus, ekki frekar en léleg frammistaða einkafyrirtækis myndi sýna fram á að hinu opinbera væri einu treystandi á mikilvægum sviðum. Þetta minnir frekar á að mál geta klúðrast illa, þótt fyrirtæki séu ekki rekin til að skila arði og hækkuðu hlutabréfaverði.
En ef einkafyrirtæki í samkeppni stæði sig eins vel og Strætó hefur gert síðustu vikurnar, myndu viðskiptavinirnir snúa sér til keppinautanna.