Þriðjudagur 20. janúar 2015

Vefþjóðviljinn 20. tbl. 19. árg.

Umhverfisverndarsamtök segja tilskipanir ESB um endurnýjanlegt eldsneyti leiða til útblásturs gróðurhúsalofttegunda, skógareyðingar, skaði lífríkið, séu dýrkeyptar fyrir skattgreiðendur, hreki smábændur af jörðum sínum og leiði til hungurs í heiminum. Nú stefnir allt í að Íslendingar geri sömu mistök og ESB.
Umhverfisverndarsamtök segja tilskipanir ESB um endurnýjanlegt eldsneyti leiða til útblásturs gróðurhúsalofttegunda, skógareyðingar, skaði lífríkið, séu dýrkeyptar fyrir skattgreiðendur, hreki smábændur af jörðum sínum og leiði til hungurs í heiminum. Nú stefnir allt í að Íslendingar geri sömu mistök og ESB.

Hér hefur áður verið sagt frá því að umhverfissinninn Al Gore telur íblöndun korn-etanóls í bensín hafa verið „mistök“. Hann hefur viðurkennt að hafa stutt málið sem stjórnmálamaður á sínum tíma til að auka líkur á stuðningi maís ræktenda við kjör sitt sem ríkisstjóra og forsetaframbjóðanda.

En er Gore ekki undantekningin meðal umhverfissinna? Styðja þeir ekki allir lífeldsneytið? Var það ekki glæsilegt og grænt framtak hjá Carbon Recycling International og Steingrími J. Sigfússyni þáverandi atvinnuvegaráðherra að leiða ESB reglur um notkun endurnýjanlegs eldsneytis í lög á Íslandi í mars 2013?

Í desember 2013 lagði hópur umhverfisverndarsamtaka á borð við Greepeace, Oxfam og Friends of Earth fram harða gagnrýni á stefnu ESB varðandi lífeldsneyti því hún

leiddi til aukins en ekki minni útblásturs gróðurhúsalofttegunda í samanburði við jarðefnaeldsneyti, hefði skógareyðingu í för með sér og skaðaði fjölbreytileika lífríkisins, hrekti smábændur af jörðum sínum og ógnaði fæðuöryggi fátækasta fólksins í veröldinni.

Umhverfisverndarsamtökin gagnrýndu einnig að lífeldsneytisframleiðslan nyti mikilla ríkisstyrkja eða um 6 milljarða evra á ári sem eru um 1.000 milljarðar íslenskra króna.

En sérstaklega gagnrýna samtökin hina óbeinu landnotkun sem lífeldsneytið hefur í för mér sér:

Land sem nýta mætti til matvælaframleiðslu er nú nýtt til ræktunar og framleiðslu á eldsneyti. Því þarf að færa matvælaræktunina annað, ekki síst í hitabeltið, þar sem áður ósnertum skógum og plöntu- og dýralífi sem þeim fylgir er rutt í burt fyrir landbúnað. Þessi skógareyðing dregur úr getu náttúrunnar til að binda koltvísýring (tré og plötur nýta CO2) og eykur stórlega útstreymi gróðurhúsalofttegunda, sem er þvert á það sem upphaflegri stefnu ESB um lífeldsneyti var ætlað.

Þetta er nöturleg lesning. Íslendingar geta fyrst og fremst þakkað Steingrími J. Sigfússyni og Carbon Recycling International fyrir að þeir muni neyðast til að taka þátt í þessu.

En hvað kemur eiginlega í veg fyrir að núverandi ríkisstjórn Íslands vindi ofan af þessu?