Mánudagur 19. janúar 2015

Vefþjóðviljinn 19. tbl. 19. árg.

Það er misjafnt hvað ratar í fjölmiðla og hvað ekki. Þannig var sagt frá því um helgina að krókódíll hefði orðið fyrir því að bíta hollenska knattspyrnumanninn Arjen Robben í höndina. Í fréttinni var svo talað um heilsu Robbens en ekki minnst á líðan vesalings dýrsins.

Það er líka merkilegt hversu samningarnir við lækna hafa bætt ástand á spítölunum. Kjaraviðræður þeirra við ríkið stóðu mánuðum saman og þann tíma birtust látlausar fréttir um hversu allt væri í niðurníðslu á spítölunum. Tæki virkuðu ekki, mikilvægustu áhöld löfðu saman á límbandi og voru auk þess flest framleidd á Indlandi. Einn og einn læknir sagði upp störfum og árvökulir fréttamenn komust strax á snoðir um það og náðu viðtali við þá samdægurs í fullum skrúða.

Fréttamenn tóku því hins vegar eins og sjálfsögðum hlut að ekki væri upplýst um þær kröfur sem gerðar voru, og kölluðu á verkföll á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum með miklum óþægindum fyrir sjúklinga.

En nú hafa læknar samið og ástandið á spíltölunum virðist batna hratt.

En þá heyrast þær raddir að samið hafi verið um allt of miklar hækkanir til lækna. Alþýðusambandið segir stefna í hörð átök.

En þetta virðast vera mjög sanngjarnir samningar. Fréttamenn eru þegar búnir að frétta af lækni í Bandaríkjunum sem ætlar að flytja heim, og öðrum sem er hættur við að segja upp.