Vefþjóðviljinn 22. tbl. 19. árg.
Ef marka má umræðu síðustu daga rúmast ríkasta eittprósentið líklega ekki innan fjölmenningarsamfélagsins. Allra síst ef það bætir við sig meiri fjármunum ár frá ári en aðrir.
Í umræðunni um misskiptinguna undanfarna daga, sem Oxfam hratt af stað, er aldrei vikið að því hvernig einstökum hópum hefur reitt af í raun. Er ekki áhugaverðari spurning hvort allir hópar hafi bætt stöðu sína en hvernig staða einstakra hópa er gagnvart næsta hópi?
Að því ógleymdu að menn flytjast sífellt milli hópa. Námsmaður einn daginn, milljarðamæringur með nýju appi þann næsta. Auðkýfingur einn daginn, gjaldþrota á leið í margra ára rannsókn hjá sérstökum þann næsta. Ríkasta eittprósentið er annað fólk í dag en í gær.
Margir telja að kenna megi frjálsum markaði um að ríkasta eittprósentið er alveg svakalega ríkt í samanburði við aðra. En var ekki augljóst að með auknum tengingum milli stærstu efnahagssvæða heimsins – fjölmenningunni – myndu menn fá færi til að þjóna fleirum og græða meira? Og þegar mögulegt varð að veita alls kyns þjónustu nánast hindrunarlaust yfir netið mátti heita einsýnt að margir myndu stórefnast.
En svo vaknar spurningin hvað sé fengið með miklum efnislegum auði. Hve miklum auði þurfa menn til að mynda að safna til að ná hámarksánægju út úr lífinu að öðru leyti? Sjálfsagt er það afar breytilegt frá manni til manns hvað hann telur sig þurfa mikið til að geta notið þess og alls annars í lífinu. En þó má ætla að margir telji meir um vert að hafa fólkið sitt á vísum stað en fjármunina.
En á þessu hafa vinstri menn að því er virðist engan áhuga. Þar á bæ er allt mælt í krónum og aurum.