Helgarsprokið 18. janúar 2015

Vefþjóðviljinn 18. tbl. 19. árg.

Fyrir þingkosningar 2013 hörmuðu ESB-sinnar þá stefnu sem landsfundur hafði sett Sjálfstæðisflokknum. Varla voru mikil loforð ætluð ESB-sinnum í stefnu sem þeir töldu hörmulega.
Fyrir þingkosningar 2013 hörmuðu ESB-sinnar þá stefnu sem landsfundur hafði sett Sjálfstæðisflokknum. Varla voru mikil loforð ætluð ESB-sinnum í stefnu sem þeir töldu hörmulega.

Því er haldið fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi fyrir þingkosningar í apríl 2013 lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðlögunar Íslands að Evrópusambandinu sem staðið hafði frá árinu 2009.

Landsfundur hefur æðsta vald í málefnum Sjálfstæðisflokksins eða eins og segir í skipulagsreglum hans:

Landsfundur hefur æðsta vald í málefnum flokksins. Hann markar heildarstefnu flokksins í landsmálum og setur reglur um skipulag hans.

Landsfundur 2013 fór fram 21. – 24. febrúar. Hann ályktaði svo um aðildarviðræðurnar:

Landsfundur telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópusambandið. Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Öllu skýrara gat þetta ekki verið skömmu fyrir þingkosningarnar 2013. Landsfundur vildi að viðræðunum yrði hætt og aldrei farið í slíkar viðræður aftur nema að fyrst yrði efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Enda var tillögu um að gert yrði „hlé“ á viðræðunum í stað þess að hætta þeim hafnað. Landsfundarfulltrúar vildu ekki „hlé“ á viðræðum heldur að þeim yrði einfaldlega „hætt.“

ESB-sinnar í Sjálfstæðisflokknum voru að vonum mjög óánægðir með þessa niðurstöðu. Ekki síst „Sjálfstæðir Evrópumenn“ sem er annað nafn yfir þá fáu sjálfstæðismenn sem vildu veita ríkisábyrgð á Icesave-skuldum einkabanka. Sjálfstæðir Evrópumenn ályktuðu á fundi 4. mars 2013:

Fundur í Sjálfstæðum Evrópumönnum 4. mars 2013 harmar það að landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafi hafnað málamiðlun í Evrópumálum og vilji hætta viðræðum við Evrópusambandið. Mikilvægt er að þjóðin fái að greiða atkvæði um málið.

Sjálfstæðir evrópumenn „hörmuðu“, hvorki meira né minna, þá stefnu sem landsfundur setti Sjálfstæðisflokknum. Þeir „hörmuðu“ að hætta ætti viðræðunum og ályktuðu gagnstætt við landsfund að efna ætti til þjóðaratkvæðis um framhaldið. Þeir „hörmuðu“ að í engu hefði verið komið til móts við kröfur þeirra um einhvers konar málamiðlun.

Nú er hins vegar öllum ljóst að nokkrir frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins misstu fótanna vegna fylgishruns flokksins á síðustu þremur mánuðunum fyrir kosningar og töluðu á annan veg um ESB málið en landsfundur. Þetta á ekki síst við um þá frambjóðendur sem höfðu af óskiljanlegum ástæðum gengið til liðs við Jóhönnu og Steingrím í Icesave III.

En einstakir frambjóðendur, jafnvel þótt þeir verði ráðherrar að loknum kosningum, breyta ekki stefnunni sem æðsta vald í málefnum flokks tekur rétt fyrir kosningar. Þeir geta lýst sinni skoðun á máli en hún breytir ekki stefnu flokksins. Og kannski allra síst frambjóðendur sem höfðu áður gengið gegn þeirri stefnu landsfunda flokksins að segja „NEI við löglausum kröfum Breta og Hollendinga“ í Icesave málinu og báru þar með ábyrgð á því fylgishruni sem flokkurinn mátti þola frá því dómur féll í málinu 28. janúar 2013.