Vefþjóðviljinn 17. tbl. 19. árg.
Fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur verið í herferð í vikunni, í útvarpi, sjónvarpi og á netinu, fyrir auknum útgjöldum ríkisins til fæðingarorlofs fyrir fullfrískt fólk. Almennir kjaftaþættir stofnunarinnar hafa einnig lagt þessari för lið sitt.
Fréttastofan er búin að tala við og vitna í tugi manna sem vilja auka byrðar skattgreiðenda vegna málsins. En engan sem vill það ekki.
Það er ógeðfellt hvernig þessi stofnun vinnur.
Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins virtist leggja það til, já já í viðtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins, að ríkisútgjöld verði aukin svo styrkur til foreldra sem eru heima að sinna börnum sínum í fæðingarorlofi verði hækkaður úr 370 þúsund krónum á mánuði upp í allt að 918 þúsund krónur. Það væri um 250% hækkun. Þeir sem nytu þessarar hækkunar til fulls væru eingöngu þeir sem eru að jafnaði með yfir 1.150 þúsund krónur í laun á mánuði. Það hlýtur hver maður að sjá að það eru helst milljón-plús-króna mennirnir sem þurfa hærri styrk til að sinna börnunum sínum.
Eftir því sem best verður séð er þessi Þorsteinn, sem leggur til 250% búhnykk fyrir hátekjufólkið, sami Þorsteinn og leggur til að launahækkanir til almennra launamanna verði helst ekki meiri en 3,5%. Það gerir hann einnig sem formaður SA en samtökin standa árlega fyrir víðtæku samráði við ýmis „samtök launafólks“ um verð á vinnutíma launamanna.
Ekki verður heldur betur séð en að þetta sé einnig sami Þorsteinn og hefur réttilega kvartað undan því að hinn hvimleiði launaskattur, tryggingagjald, sé ekki lækkaður. En fæðingarorlofssjóður er fjármagnaður með tryggingagjaldi. Já rosalega er skrítið að tryggingagjaldið lækki ekki.