Vefþjóðviljinn 16. tbl. 19. árg.
Orð skipta máli. Áróðursmenn vita vel að sakleysislegar breytingar á orðalagi geta haft mikil áhrif á það hvernig fólk skynjar það sem fjallað er um.
Síðustu daga hefur verið í fréttum að stjórnvöld ætla víst loksins að afturkalla inngöngubeiðni Íslands í Evrópusambandið, nú þegar um 21 mánuður er liðinn frá því ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms missti þingmeirihluta sinn. En hvað segja fréttamenn þá að málið snúist um
Ætli þeir segi að afturkalla eigi inngöngubeiðni Íslands í Evrópusambandið?
Nei, hjá fréttamönnum heitir þetta núna að „slíta viðræðum“ við Evrópusambandið. Ert þú fylgjandi „viðræðuslitum“?
Á þessu er auðvitað mikill munur. Með því að lýsa málinu eins og það snúist um að „slíta viðræðum“ er gefin sú mynd af mönnum að þeir vilji bara ekki tala við aðra. Hver vill eiginlega slíta viðræðum? Er ekki alltaf betra þegar deilendur tala saman? Viðræður eru nú alltaf af hinu góða, er það ekki?
Staðreyndin er hins vegar sú að málið snýst ekki um einhver „viðræðuslit“. Málið snýst um að Ísland var látið lýsa því yfir árið 2009 að það hefði ákveðið að ganga í Evrópusambandið. Ísland óskaði eftir inngöngu í Evrópusambandið. Svo lengi sem sú inngöngubeiðni er ekki afturkölluð þá stendur sú yfirlýsing frá árinu 2009 á alþjóðavettvangi. Evrópusambandið og önnur ríki líta á Ísland sem umsóknarríki.
Þessu þarf auðvitað að breyta og hefði átt að vera búið að því fyrir löngu. Auðvitað á að afturkalla inngöngubeiðnina í Evrópusambandið þegar ekki er lengur meirihluti á Alþingi fyrir inngöngu.
Engar viðræður hafa farið fram síðustu misseri um inngönguna. Það er ekki verið að slíta neinum „viðræðum“. Það á einfaldlega að hætta að lýsa því yfir á alþjóðavettvangi að Ísland hafi ákveðið að ganga í Evrópusambandið.
Þeir sem láta eins og málið snúist um að „slíta viðræðum“, þeir gefa mjög villandi mynd af því. Eina spurningin er hvort þeir gera það í hugsunarleysi eða vísvitandi. Þar er annar möguleikinn líklegri en hinn.