Föstudagur 26. desember 2014

Vefþjóðviljinn 360. tbl. 18. árg.

Við andlát Margrétar Thatcher fjölluðu flestir fjölmiðlar heims, sem á annað borð fjalla um þjóðfélagsmál, um hana og feril hennar eins og búast mátti við. Auðvitað skipti pólitísk afstaða einstakra miðla máli þegar menn völdu sér sjónarhorn, en allir áttuðu sig á því að þarna var fjallað um einn áhrifamesta stjórnmálaleiðtoga heims á síðari hluta síðustu  aldar.

Íslenskir skattgreiðendur eru hins vegar svo heppnir að þeir eru  skyldaðir til þess að halda úti sérstökum fjölmiðli sem nefndur er Rás 2, og þar ganga starfsmenn sjálfala og þeirra eigið gildismat ræður eitt. Það sem Rás 2 hafði til málanna að leggja var að fá leikara til að leika persónuna “Frímann Gunnarsson”,  sem dæmigerðan aðdáanda Thatcher, barnalegan og hlægilegan.

Á aðfangadag jóla var “Frímann Gunnarsson” aftur mættur á Rás 2. Nú var hann ekki fenginn til að hæðast að þeim sem bera virðingu fyrir Thatcher. Nú var hann fenginn til að lesa jólaguðspjallið með sínum hætti, barnalegur og hlægilegur.

Menn geta haft hvaða skoðun sem er á Margréti Thatcher. Menn geta líka haft sína skoðun á guðspjöllunum, eins og öðru. En hvers vegna eru skattgreiðendur látnir fjármagna þennan tiltekna hugmyndaheim starfsmanna sinna? Fólk er neytt til að greiða þessari stofnun stórfé í “útvarpsgjald”. Hvers vegna eru greiðendur útvarpsgjalds neyddir til að fjármagna háð um jólaguðspjallið á aðfangadag? 

Framkoma eins og þessi er ein skýring þess að fleiri og fleiri eru hættir að nenna að verja Ríkisútvarpið. Ekki beinlínis vegna pólitísku slagsíðunnar, sem þó er mjög mikil. Það er örugglega ekki síður vegna þess að á alla síðustu árum hefur orðið enn bersýnilegra að starfsmennirnir í Efstaleiti 1 fara algerlega sínu fram, eins og þeir eigi útvarpið sjálfir.

En sumir bregðast þeim þó aldrei. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins ákvað fyrr í þesum mánuði með atbeina menntamálaráherra og hans manna í útvarpsráði að hækka framlög skattgreiðenda til hítarinnar í Efstaleiti 1, en fékk ekkert nema ofstopa að launum, eins og nær allir þingmenn hans vissu fyrir.