Fimmtudagur 25. desember 2014

Vefþjóðviljinn 359. tbl. 18. árg.

Tvær mikilvægar bækur um hlutskipti mannanna. Annars vegar um ólýsanlegt miðstýrt níðingsverk og hins vegar framfarir í skjóli lýðræðis, mannréttinda og frjálsrar verslunar.
Tvær mikilvægar bækur um hlutskipti mannanna. Annars vegar um ólýsanlegt miðstýrt níðingsverk og hins vegar framfarir í skjóli lýðræðis, mannréttinda og frjálsrar verslunar.

Ein ástæða þess að jólahald er ekki til einskis er að menn nota gjarnan tækifærið til að líta aftur um svo sem tvö þúsund ár.

Þessi tvö árþsúsund eru vörðuð margvíslegu og óskiljanlegu ofbeldi og ranglæti en ekki ekki síður miklum framförum þar sem lýðræði og mannréttindi hafa náð að skjóta rótum og frjáls verslun hefur leyst lénsskipulag og aðra ríkisforsjá af hólmi.

Tvær bækur í bóksölu Andríkis gera þessum tveimur andstæðu straumum í hlutskipti mannanna einstaklega góð skil. Annars vegar bókin Nótt og hins vegar Heimur batnandi fer.

Í bók sinni Nótt fjallar gyðingurinn Elie Wiesel um þá martröð sem hann upplifði þegar hann og fjölskylda hans voru tekin höndum og flutt í útrýmingarbúðirnar í Auschwitz og Buchenwald. Þar var hann þar til Bandaríkjamenn komu í apríl 1945 en fjölskylda hans var ekki eins heppin, ef tala má um heppni í því sambandi. Mörgum árum síðar, hafði hann að einhverju leyti náð að horfast í augu við reynslu sína og skrifaði í framhaldi þessa sjálfsævisögulegu bók, sem hefur náð metsölu víða um heim.

Vitanlega er langt í að hryllingurinn sem lagður var á gyðinga á fjórða og fimmta áratugnum gleymist, en þess þarf að gæta að komandi kynslóðir viti hvað fram fór. Þeir sem stóðu fyrir ofsóknunum voru ekki einhverjar illar verur af öðrum hnetti, heldur menn af holdi og blóði, menn sem í upphafi voru kannski ekkert verri en hverjir aðrir. En þegar nógu lengi er alið á hatri, þegar ofstækið veður uppi, þá getur aftur farið eins og þá fór. Þegar tekst að koma því inn hjá nógu mörgum að erfiðleikar þeirra séu einhverjum tilteknum öðrum hópi að kenna, þegar tekst að búa til stigvaxandi almenningsálit sem fyrst lætur minniháttar eignaspjöll og ofbeldi gegn þessum afmarkaða hópi viðgangast, þegar stjórnvöld fara næst að hvetja til ofbeldis og eignaupptöku og loks taka fullan þátt í því sjálf, þá er aldrei að vita á hvaða stig illskan getur komist. Meðal annars þess vegna mega menn aldrei gleyma þessari skelfilegustu mynd skipulagðs ofbeldis sem mannkynið hefur náð að beita sjálft sig. Og þær milljónir manna sem þarna voru myrtar, af ekki bara ráðnum hug heldur óhugnanlegri skipulagningu og nákvæmni, eiga það líka skilið að örlaga þeirra sé minnst.

Í bókinni Heimur batnandi fer sem kom út nýlega á íslensku rekur höfundurinn Matt Ridley hvernig við höfum orðið ríkari, heilbrigðari, hamingjusamari, friðsamari, jafnari og langlífari en nokkur fyrri kynslóð. Við getum þakkað það hinum einstæða sið mannsins að stunda viðskipti og verkaskiptingu, hvernig tegund okkar hefur tekist að stíga yfir allar þær hindranir, sem staðið hafa í vegi okkar.

Ridley rekur í bókinni hvernig flest hafi verið mannkyni í haginn undanfarin tvöhundruð ár. Allur kostur þorrans hafi snarbatnað, fæða, húsanæði, ný tæki og tækni, lyf og læknishjálp. Þetta hefur skilað sér í mikilli fólksfjölgun og lengri ævi.

Í bókinni sýnir hann hvernig flest lífgæði hafi snarlækkað í verði fyrir fjöldann. Eitt hefur þó ekki lækkað eins skarpt og vænta mætti en það er húsnæði. Ridley telur að það skýrist af ýmsum afskiptum hins opinbera af húsnæðismálum. Annars vegar stýri hið opinbera skipulagsmálum og skammti land til bygginga. Hins vegar hvetji það skuldsetningar við íbúðakaup með því að niðurgreiða vaxtakostnað. Hvort tveggja leiði til hærra íbúðaverðs.