Mánudagur 22. desember 2014

Vefþjóðviljinn 356. tbl. 18. árg.

Grænu orkarnir kosta skattgreiðendur ekki aðeins hátt í 2.000 milljónir á ári heldur brugðust þeir alveg við að verja almenning gegn þeirri auknu mengun og sóun sem hreina vinstri stjórnin beitti sér fyrir.
Grænu orkarnir kosta skattgreiðendur ekki aðeins hátt í 2.000 milljónir á ári heldur brugðust þeir alveg við að verja almenning gegn þeirri auknu mengun og sóun sem hreina vinstri stjórnin beitti sér fyrir.

Vinstri stjórn síðasta kjörtímabils beitti sér fyrir þremur markverðum breytingum sem varða bíla og umhverfismál.

Í fyrsta lagi var það markmið vinstri stjórnarinnar með breytingu á lögum um vörugjöld á eldsneyti og bifreiðar árið 2010 var að ýta undir notkun Dieselbíla á kostnað bensínbíla. Sérstakt kolefnisgjald var einnig lagt á í þessum tilgangi. Útblástur Dieselbíla er þó hættulegri manninum en útblástur frá bensínbíl. Þetta mátti öllum vera ljóst árið 2010. Hvar voru Umhverfisstofnun, Orkustofnun, Umhverfisnefnd Reykjavíkurborgar, Orkusetur, Græna orkan og hvað þau heita öll ríkisapparötin sem þykjast hafa þekkingu á þessum málum þegar þessi lög um aukna sótmengun voru samþykkt? Sváfu starfsmenn þessara stofnana á verðinum eða voru þeir bara meðvirkir með hreinu vinstristjórninni?

Vinstri stjórnin óskaði einnig eftir því í aðildarviðræðum Íslands við ESB að Ísland fengi undanþágu frá 70 kPa hámarki á gufuþrýstingi bensíns á sumrin. Íslensk stjórnvöld óskuðu eftir því að fá mörkin hækkuð í 80 kPa. Þetta kemur fram í kafla um samningsafstöðu Íslands um umhverfismál (bls. 42). Þessi mörk eru þó sett í heilsuverndarskyni og við brotum á reglugerð þar um hafa hingað til legið þungar refsingar. Því hærri sem gufuþrýstingur bensíns er því meira af því sleppur út í andrúmsloftið við meðhöndlun, eins og áfyllingu á bíl eða garðsláttuvél. Engin andmæli heyrðust gegn þessari undanþágu frá alþjólegum heilsuverndarmörkum frá Umhverfisstofnun, ekki lét umhverfisnefnd borgarinnar sig þetta heilsuverndarmál nokkru varða og Græna orkan var meðvirk að vanda.

Að lokum setti vinstri stjórnin svo lögin sem Carbon Recycling International skrifaði og færði henni um endurnýjanlegt eldsneyti á bíla. Lögin hafa leitt til ofboðslegrar sóunar á fjármunum Íslendinga við lífolíuinnkaup og fái lögin að standa óbreytt má gera ráð fyrir að farið verði að flytja inn orkurýrt etanól til íblöndunar í bensín sem mun auka eyðslu í bílvélum landsmanna. Þessi lög fengu grænt ljós hjá Orkustofnun, Umhverfisstofnun og Grænu orkunni.