Vefþjóðviljinn 350. tbl. 18. árg.
Lögin um endurnýjanlegt eldsneyti, sem hagsmunaaðilinn Carbon Recycling International skrifaði fyrir Steingrím J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra í þeim tilgangi að færa sér mörg hundruð milljónir króna á ári af fé sem fram að því hafði runnið í ríkissjóð, hafa valdið Íslandi stórtjóni með óþörfum útgjöldum.
Þessi óþörfu útgjöld koma til vegna þess að seljendur eldsneytis neyðast til innflutnings á mjög dýru lífeldsneyti til að uppfylla kröfur laganna, auk óhagræðis í flutningi og dreifingu.
En lífeldsneyti almennt hefur fleiri og jafnvel nöturlegri afleiðingar en fjárhagslegt tjón fyrir Íslendinga.
Björn Lomborg veik að þeim í nýlegri grein í The Daily Telegraph:
Notkun lífeldsneytis hefur til að mynda leitt til hærra matarverðs og líklega svelta um 30 milljónir manna að óþörfu vegna þeirra, og fjöldi hungraðra af völdum lífeldsneytis gæti aukist í 100 milljónir manna fyrir árið 2020. Það er sennilegt að lífeldsneyti leiði til aukins útblásturs koltvísýrings (CO2) því þegar menn taka akra undir ræktun á plöntum til lífeldsneytisframleiðslu þarf að ryðja skóga annars staðar til að rækta matjurtir.
Ætlar alþingi að halda í lög sem samin voru af sérgæsku og virðingarleysi við þingið og leiða ekki aðeins til stórfelldrar sóunar á fjármunum Íslendinga heldur hafa svo ömurlegar aukaverkanir?