Vefþjóðviljinn 348. tbl. 18. árg.
Í tilefni af því að aldarfjórðungur er liðinn frá falli Berlínarmúrsins hefur Ugla endurútgefið í handhægri kilju bókina Kommúnismann eftir Richard Pipes, prófessor við Harvard-háskóla. Í bókinni er fjallað í stuttu máli um sögu kommúnismans á heimsvísu. Lýst er fræðilegum grundvelli kommúnismans, sögu hans í Rússlandi, útbreiðslu hans til Austur-Evrópu, Kína og þróunarlanda, viðtökum hans á Vesturlöndum og kalda stríðinu.
Rakin er saga kommúnismans í Rússlandi og velt vöngum yfir því hvers vegna Rússland, þvert á alla spádóma Marx, varð fyrst landa til að verða kommúnískt. Sagt er frá stjórnarháttum Leníns og Stalíns í Sovétríkjunum. Fjallað er um sögu kommúnismans á heimsvísu – útbreiðslu hans til Kína og þróunarlanda, viðtökur hans á Vesturlöndum og kalda stríðið.
Þegar bókin kom fyrst út á íslensku fyrir tæpum áratug sagði Vefþjóðviljinn að fyrir því mætti færa sterk og dapurleg rök að í stjórnmálastefnunni kommúnisma, og framkvæmd stefnunnar víða um heim, hafi falist mestu manngerðu hörmungar sem nokkru sinni hafi dunið á saklausu fólki. Það er með algerum ólíkindum hvílíka ógn og hörmungar þeir leiddu yfir þjóðir sínar, þeir menn sem á síðustu öld stýrðu þeim í nafni kommúnismans um lengri eða skemmri tíma. Og ekki síður er ótrúlegt til þess að hugsa að í öðrum ríkjum voru ætíð menn sem báru blak af kommúnistastjórnunum, annað hvort berum orðum eða með því að gefa í skyn að önnur stjórnvöld væru síst betri, eða með því að sá tortryggni í garð alls þess sem Vesturlönd reyndu að gera til þess að verjast útbreiðslu kommúnismans. Saga kommúnismans er með miklum ólíkindum, vægast sagt, og má hvorki falla í gleymsku né verða bráð þess tómlætis sem sér lítinn sem engan mun á réttu og röngu. Þeir sem vilja teljast sæmilega upplýstir verða því miður að kynna sér hörmungarsögu kommúnismans, uppgang hans, ógnir hans og loks hrun hans.
En það eru ekki aðeins löngu látnir og fjarlægir leiðtogar eins og Lenín og Stalín sem eru kynntir til sögunnar. Saga kommúnismans er í bókinni rakin allt fram á þennan dag. Pol Pot í Kambódíu, Castro á Kúbu, Mao í Kína, Allende í Chile, Mengistu í Eþíópíu eru leiðtogar sem fá sinn sess í bókinni og fleiri mætti nefna. Saga þeirra allra mætti verða fólki víti til varnaðar, þó það sé misjafnt hversu illu þeir komu til leiðar. Þeir Pol Pot og Allende eru vitanlega ekki sambærilegir að því leyti, svo dæmi sé tekið. Kommúnisminn er afar aðgengileg og lipurlega skrifuð bók og fagnaðarefni að slíkt rit sé til á íslensku um þetta málefni.
Kommúnisminn fæst í Bóksölu Andríkis á k.r 2.900 og er heimsending innanlands innifalin í verðinu.