Föstudagur 12. desember 2014

Vefþjóðviljinn 346. tbl. 18. árg.

Ef einhver hefur efast um mikilvægi Ríkisútvarpsins fyrir vinstrimennsku í landinum þá hefur hann kannski áttað sig á henni, þegar hann fylgist með ofsanum í baráttu vinstrimanna fyrir enn frekari aukningu opinberra framlaga til þeirra í Efstaleiti.

Svo mikill er ofsinn að hugsanlega eru einhverjir farnir að halda að stjórnarþingmann hafi safnað kjarki og dregið eitthvað úr opinberum framlögum til Ríkisútvarpsins. En staðreyndin er sú, að þvert á það sem menn gætu haldið, þá er enn lagt til í fjárlagafrumvarpinu að framlög skattgreiðenda til Ríkisútvarpsins verði aukin verulega frá því sem áður var.

Og hvað fá stjórnarþingmenn fyrir þá uppgjöf sína? Ekkert nema enn frekari ofsa og æsing.

Björn Bjarnason hefur á heimasíðu sinni tekið dæmi af stóryrðunum. Hann hefur þannig eftir Guðmundi Andra Thorssyni að Ríkisútvarpið búi við „stöðugar árásir frá frekjuhundum“, en Guðmundi Andra þykja þeir vera miklar frekjur sem takmarka vilja aukningu greiðslna skattgreiðenda til þessarar stofnunar. Hinir, sem auka vilja greiðslurnar enn meira en stjórnarþingmenn hafa þegar látið hræða sig til, þeir eru ekki frekjur.

Menn ættu að muna það aðalatriði málsins að Ríkisútvarpið er opinber stofnun eða fyrirtæki. Hún fær marga milljarða króna af almannafé á hverju ári. Starfsmenn hennar ganga sjálfala. En stuðningsmenn þeirra tryllast ef einhver leyfir sér að gagnrýna hvernig þessi opinbera stofnun starfar eða telur of mikið fé renna til hennar.

Ríkið á fjölmargar stofnanir og fyrirtæki. Engum dettur í hug að það sé óeðlilegt að þær séu gagnrýndar eða starfsmenn hennar beri ábyrgð gagnvart kjörnum fulltrúum. En þegar starfsmenn Ríkisútvarpsins eiga í hlut þá er reynt að hræða alla til þess að þegja.

Ef einhver brygðist við af svona æsingi þegar Landsvirkjun, Orkustofnun, lögregluna, ríkislögreglustjóra, Vegagerðina, Hafrannsókarstofnun, Umhverfisstofnun, Háskóla Íslands eða einhver önnur opinber stofnun ætti í hlut, þá sæju allir hversu fráleitt það væri.

Það er alveg jafn fráleitt þegar starfsmenn Ríkisútvarpsins eiga í hlut. Það er ótrúlegt hversu stjórnmálamenn beygja sig fyrir þeim.
Og nú ætlar stjórnarmeirihlutinn að bæta hundruðum milljóna króna við fyrri fjárveitingar til þeirra. Fyrir það fær hann svívirðingar og uppnefni.