Mánudagur 1. desember 2014

Vefþjóðviljinn 335. tbl. 18. árg.

Ofboðslegur húsakostur, ofboðslegir fjármunir frá skattgreiðendum, ofboðslegur starfsmannafjöldi. Og þetta bákn er sagt sært dýr.
Ofboðslegur húsakostur, ofboðslegir fjármunir frá skattgreiðendum, ofboðslegur starfsmannafjöldi. Og þetta bákn er sagt sært dýr.

Björn Bjarnason fyrrverandi menntamálaráðherra vekur athygli á því í dag að „grátkór ríkisútvarpsins“ noti nú alla fjölmiðla til að ala á þeirri skoðun að níðst sé á Ríkisútvarpinu. Bendir hann til dæmis á nýlegt viðtal Morgunblaðsins við Pétur Gunnarsson rithöfund sem segist vera „uggandi um útvarp allra landsmanna. Það minnir á sært dýr. Úlfarnir hafa runnið á blóðslóðina og eru að gera sig líklega til að ráðast á það. Ég óttast að óvildarmenn RÚV til langs tíma ætli að nota núverandi ástand til að rýra, skerða og þrengja enn frekar að hag Ríkisútvarpsins.“

Ríkisútvarpið, þetta særða dýr sem dregur á eftir sér blóðslóðina sem úlfarnir elta, hefur fengið 57,5 milljarða króna frá skattgreiðendum frá síðustu aldamótum. Fimmtíu og sjöþúsund milljónir. Við það bætast verulegar auglýsingatekjur.

Ofboðslegar álögur eru lagðar á skattgreiðendur. Ríkissjóður skuldar stórfé. Sagt er að heilbrigðiskerfið sé „í molum“. Svo koma menn, sem eru vanir að koma fyrir sig orði og margir taka mark á, og segja að Ríkisútvarpið, sem hefur fengið 57,5 milljarða frá skattgreiðendum á síðustu árum, sé „eins og sært dýr“.

En þessi fráleiti áróður virðist bera árangur.

Stjórnarþingmenn virðast enn ætla að hækka enn framlögin til Ríkisútvarpsins. Samkvæmt fjárlagafrunvarpinu í haust var gert ráð fyrir 3,5 milljarða framlagi, en fjárlaganefnd Vigdísar Hauksdóttur ætlar nú að leggja til að þessi ótrúlega háa upphæð verði enn hækkuð, og það í 3,9 milljarða.

Ætla stjórnarþingmenn virkilega að láta þetta gerast?

Því verður ekki trúað að fjárlögin fari þannig í gegnum þingið.