Helgarsprokið 30. nóvember 2014

Vefþjóðviljinn 334. tbl. 18. árg.

Í hvert sinn sem menn samþykkja skerðingu á einkaeignarrétti færist víglínan nær einhverju sem þeir sjálfir eiga.
Í hvert sinn sem menn samþykkja skerðingu á einkaeignarrétti færist víglínan nær einhverju sem þeir sjálfir eiga.

Félagið Landvernd og fjögur útivistarfélög hafa sent frá sér sameiginlega kröfu um að Vegagerðin og Landsnet falli frá hugmyndum um háspennulínu og uppbyggðan veg um Sprengisand, þar sem framkvæmdirnar myndu valda miklu raski og óafturkræfum áhrifum á miðhálendinu, auk þess sem þær myndu meðal annars skerða möguleika á útivist og ferðaþjónustu þar.

Eflaust er mikið til í þessu. Menn ættu að fara mjög varlega í „láglendisvæðingu“ hálendisins, og hafa raunar þegar gengið þar of langt, eins og á Kjalvegi.

En þessi áskorun Landverndar og útivistarfélaganna vekur ýmsar aðrar hugrenningar.

Hér fara Landvernd og útivistarfélögin fram á að ekki verði farið út í framkvæmdir, sem vænta mætti að yrðu einhverjum öðrum til hagsbóta. Það má vafalaust rökstyðja lagningu háspennulínu. Uppbyggður vegur um Sprengisand yrði einhverjum ánægjuakstur á smábílnum sínum. Engu að síður er farið fram á að þetta verði ekki gert, meðal annars vegna hagsmuna þeirra sem gera út á náttúruna eins og hún er núna á hálendinu.

Það er með öðrum orðum farið fram á að menn neiti sér um þessa framkvæmd vegna vilja eða hagsmuna annarra, í þessu tilviki Landverndar, útivistarfélaga og ferðaþjónustumanna.
Hversu viljugir eru ferðaþjónustumenn almennt þegar kemur að hagsmunum annarra? Eru þeir sjálfir reiðubúnir að neita sér um margt, vegna hagsmuna eða réttinda annarra?

Hvernig bregðast ferðaþjónustumenn til dæmis við, þegar landeigendur vilja taka gjald fyrir aðgang að eigin landi? Eru ferðaþjónustumenn þá ekki bálreiðir? Vilja ferðaþjónustumenn ekki fá að selja ferðir inn á land annarra, flytja þangað ferðafólk tugþúsundum saman, sem glápir, traðkar og tekur myndir, án þess að landeigandinn fái neitt? Ferðaþjónustumenn sem varla tækju því vel ef einhver settist upp í rútuna þeirra án þess að borga fyrir, vilja fá að nota land annarra til að hagnast á því sjálfir.

Þeir sem vilja fá að stöðva framkvæmdir á landi sem þeir eiga ekki, eru þeir reiðubúnir að leyfa landeiganda að stöðva umgang um land sem hann á?

En hefur landeigandinn gert eitthvað til að auka verðmæti landsins? Bjó hann kannski hverinn eða fossinn til? Nei, það gerði hann ekki. En hann á einfaldlega landið sitt. Rétt eins og rútueigandinn á rútuna sína, hvort sem hann smíðaði hana sjálfur, þrífur hana, bónar eða heldur henni við.
Það er ekkert nýtt að tekist sé á um einkaeignarrétt. Vinstrimenn hafa alltaf haft horn í síðu eignarréttar annarra. Hann var afnuminn í kommúnistaríkjunum. Vinstrimenn nútímans myndu fæstir gangast við því að vilja afnema hann að öllu leyti, en þegar á reynir taka þeir yfirleitt afstöðu gegn eignarréttinum. Þeir segja ekki endilega að þeir vilji almenna ríkiseign, en reyna oft að setja slíka kröfu í feluliti, þegar þeir í raun eiga við að ríkið megi eiga en einstaklingarnir ekki.

Einkaeignarréttur er ein grundvallarundirstaða sæmilegs þjóðfélags. Það er einkaeignarrétturinn sem gefur mönnum raunhæfa ástæðu til að reyna að afla sér einhvers meira en næstu máltíðar. Ef menn mega ekki eignast eignir, þá missa þeir langmikilvægasta hvatann til að afla verðmæta. Hver ætti að leggja í erfiði við að halda hlutum við, gæta þeirra eða auka verðmæti þeirra, ef hann mætti ekki halda ávinningnum af því striti sínu? Menn ættu að horfa til þeirra landa þar sem einkaeignarréttur hefur verið bannaður eða takmarkaður verulega. Finnst mönnum lífskjör í þeim eftirsóknarverð?

En nú vill auðvitað enginn afnema einkaeignarrétt, segja menn kannski. En það er bara ekki rétt. Vinstrimenn tala ítrekað gegn einkaeignarrétti í raun. Þegar upp kemur krafa um að skerða einstakan einkaeignarrétt taka þeir afstöðu með þeim sem vill skerða réttinn.

Í hvert sinn sem menn samþykkja skerðingu á einkaeignarrétti, grafa þeir undan þessum grundvallarrétti. Og í hvert sinn færist víglínan nær einhverju sem þeir sjálfir eiga.